19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það eru að eins tvær fyrirspurnir er jeg vildi beina til háttv. frsm. (E. P.).

1. Er það meiningin, að 49 þús. kr. upphæðin í 17. brtt. við 13. gr. sje föst upphæð þannig, að þó dýrtíðaruppbót eftir launalögunum reynist meiri, þá fái þessir símastarfsmenn ekki hærri upphæð en þarna er tiltekin; og að þeir fái á sama hátt þessa upphæð þó uppbótin eftir launalögunum verði minni?

2. Við 13. gr. B. I. 2. hefir nefndin gert þá brtt., að orðin „verkfróðra“ falli niður. Ef jeg man rjett var það tilætlun stjórnarinnar, að aðstoðarverkfræðingurinn fjelli burtu en að menn kæmu í hans stað, sem að vísu ekki væru „útlærðir“, en hefðu þó fengið æfingu í þesskonar störfum.

Nú skilst mjer, að nefndin ætlist til, að haldið sje áfram að hafa aðstoðarverkfræðing. — Við hvaða aðstoð er þá átt?