26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það leit út fyrir, að hv. þm. Borgf. (P. O.) hneykslaðist á því, er jeg sagði, að saltkaup stjórnarinnar hefðu verið einn þáttur í dýrtíðarráðstöfunum hennar. Jeg vil spyrja: Hvernig mundi hafa farið fyrir sjávarútveginum, ef landsstjórnin hefði ekki ráðist í að kaupa salt, þótt hún gæti búist við, að halli yrði á því? Og við því mátti í sannleika búast, verðlækkunin sveif altaf yfir og hún skall á meðan stjórnin lá með allmiklar saltbirgðir. Einmitt af því, að útlitið var þetta, drógu kaupmenn sig í hlje með það að birgja sig upp með salt, eigi síður en ýmsar aðrar vörur, og var þeim það í sjálfu sjer ekki láandi. Landsstjórnin hljóp þá undir bagga og tók á sig áhættuna, til þess að bjarga við sjávarútveginum, og finst mjer hann mega vera þakklátur fyrir það, enda hefi jeg talað við marga, sem þá skoðun hafa. En hitt liggur og í augum uppi, að landssjóður gat ekki tekið á sig þessa áhættu og halla þann, sem henni fylgdi, nema með því að fá hann bættan upp síðar. Þetta vona jeg, að hv. þm. (P. O.) skilji. (P. O.: Það hafa ekki komið fram mótmæli gegn því, sem hæstv. ráðherra segir, og því óþarft að orðlengja um það).

Nú er útlitið orðið það, að ekki eigi að heimta nema 7 kr. viðbótartoll af hverju tonni af salti. Það sýnist því ástæðulaust að vekja hjer deilur og úlfúð út af þessum tolli, þar sem ekki er dýpra tekið í árinni. Það er sýnilegt, að allir hjer vilja hlaupa undir bagga með sjávarútveginum og fyrir það ættu meðhaldsmenn hans að vera þakklátir.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) kvað landssjóð mundu liggja með allmikið af ensku salti, og að það vildu menn eigi nota til fiskverkunar. Sem stendur veit jeg ekki, hve mikið er fyrirliggjandi af þessu salti; en það veit jeg frá einum af forstjórum landsverslunarinnar, að sumir, t. d. Vestmannaeyingar, vilja einmitt þetta salt.

Jeg tek það enn fram, að eigi er aflögu tími til að deila um þetta atriði, sem allir sýnast í raun rjettri sammála um, allir sammála um, að rjett hafi verið af landinu að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum og tryggja honum salt meðan horfurnar voru erfiðar, og rjett, að sjávarútvegurinu beri hallann sem af ráðstöfunum þessum leiddi. Með 7 kr. tolli á salttonnið tel jeg líklegt, að 3–4 ár þufti til að vinna upp hallann, miðað við líka salteyðslu sem síðustu árin.