26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Benedikt Sveinsson:

Mjer finst það óþarfi af hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), og eigi á rökum bygt, að varpa því fram, að hjer sje verið að vekja deilur um salttollinn og saltkaup landsstjórnarinnar. Allir sýnast ásáttir um, að salttollinn skuli leggja á, og Fiskifjelagið þar á meðal. Það hlýtur því að stafa af ofheyrn hjá hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), er hann talar um deilur út af tollinum. Um tollálagninguna greinir menn ekki á, heldur um það eitt, á hve löngum tíma eigi að vinna upp hallann á saltkaupum landsstjórnarinnar. Það er dálítið undarlegt að heyra hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) tala um það, að sjávarútvegurinn megi vera stjórninni þakklátur fyrir það, að hafa ekki orðið að sæta þyngri kjörum af hennar hendi en raun er á orðin. Henni hefði verið innan handar að hafa einokun á salti framvegis, segir hann. Það er rjett eins og hann hafi í bili gleymt því, að stjórnin er hjer ekki einráð, en að það hlaut að koma til þingsins kasta að kveða á um, hvort einokuninni skyldi haldið eða ekki, eins og það yfir höfuð verður þingið, en ekki stjórnin, sem að lokum kveður á um það, hverjum tökum sjávarútvegurinn skuli beittur. Jeg held því fram, að tollurinn sje settur fullhár, og að ekki sje rjett að miða hann við saltinnflutninginn tvö síðustu árin, því að það dylst engum, að ófriðurinn hefir lagt ýmsar hömlur á sjávarútveginn og dregið mjög úr salteyðslu í landinu. Þá munaði ekki heldur lítið um það, er 10 botnvörpungar voru seldir hjeðan úr landi nú fyrir tveim árum. En nú stendur fyrir dyrum, að jafnmargir eða fleiri bætist í skarðið í haust og í vetur. (S. E.: Er víst, að þeir muni fiska í salt?) Það er lítil ástæða til að ætla, að þeir muni ekki halda því áfram líkt og að undanförnu, hvort heldur sem litið er til hins háa kolaverðs, sem dregur úr Englandsferðum botnvörpunganna, eða útlits á saltfisksverði nú um sinn. Auk þess eru allar horfur þær, að útgerð muni aukast að öðru leyti og þar með notkun á salti.

Þá er um hitt að ræða, hve nær skattur þessi eigi niður að falla. Þar höfum vjer ekkert annað fyrir oss en óljós orð í greinargerð frv. og vilyrði hv. frsm. (E. Árna.). Þó dró hann sjálfur allmjög úr þessu, er hann sagði, að enginn vissi nú, hverjir sætu þá á þingi, er tollurinn ætti niður að falla, nje heldur hvaða stjórn sæti þá að völdum, og þar af leiðandi væri eigi hægt að segja nú, hvernig þá mundi verða litið á málið. Þetta sýnir ljóst, hve nauðsynlegt er að taka fram í lögunum sjálfum, hve nær þau skuli falla úr gildi.

Þá drap hv. þm. (E. Árna.) á, að það væri ekki heppilegt fyrir sjávarútveginn, að ákveðið væri í lögunum, að þau falli úr gildi um næsta nýár eftir að hallinn á saltinu væri unninn upp; kvað hann stjórnina ekki mundu hafa fengið allar skýrslur um saltsölu og saltbirgðir um nýár, og ekki fyr en komið væri fram í mars eða apríl. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. (E. Árna.), því að, eins og jeg sagði áður, á stjórninni að vera innan handar að ná í skýrslur þessar á örfáum dögum með símskeytum, og engin ástæða að væna hana að óreyndu um ófyrirgefanlegt seinlæti í því. Það á að vera innanhandar fyrir stjórnina að sjá undir árslokin, hve nær lögin muni mega falla úr gildi, og það er engin ástæða að taka lögin svo bókstaflega, að þótt nokkrar krónur vantaði um nýár upp á að hallinn vari að fullu unninn upp, að láta lögin fyrir þá sök gilda alt næsta árið.

Hver mundi verða afleiðingin af því, ef frv. yrði látið ganga fram óbreytt? Við höfum óljós loforð fyrir því, að lögin skuli falla úr gildi, þegar hallinn sje unninn upp. En ekki falla þau úr gildi af sjálfu sjer, ef í þeim er ekkert um það fyrirmælt; og ef stjórnin sýnir annan eins slóðaskap og hv. þm. (E. Árna.) gerir ráð fyrir, þá getur það dregist, að þau hverfi úr sögunni. Eða gerir hv. þm. (E. Árna.) ráð fyrir, að stjórnin fari að gefa út bráðabirgðalög um, að lög þessi skuli falla úr gildi, þegar hún einhvern tíma seint og síðar meir hefir fengið vitneskju um, að þeirra þurfi ekki lengur við? Ef til vill ætlast hann til, að beðið sje til næsta þings með það að fella þau úr gildi, og lægi það óneitanlega beinast við.

Jeg sje ekki, hvað hv. þm. (E. Árna.) getur haft á móti brtt., því að hún fer ekki fram á neitt annað en það, sem hann segir að sje tilgangur frv., en gerir það að eins auðveldara að ná honum til fulls.

Hv. þm. (E. Árna.) spurði, hvað verða ætti um vörutollinn, þegar lögin fjellu úr gildi, ef brtt. fengi framgang. Jeg get beint alveg sömu spurningu að hv. þm. (E. Árna.), því að í frv. er ekki gert ráð fyrir, að vörutollurinn leggist aftur á salt, þegar lögin hverfa úr gildi.

En jeg geri ráð fyrir, að vörutollurinn muni aftur af sjálfu sjer falla á saltið, þegar þessi lög falla úr gildi, svo framarlega sem vörutollslögin sjálf verða þá eigi horfin úr sögunni. Að öðru leyti er hægt að laga þetta til 3. umr., því að þess er jafnmikil þörf, hvort sem frv. verður samþykt óbreytt, eða brtt. mínar komast að.