19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Út af fyrirspurnum hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) skal jeg taka fram, að 49 þús. kr. uppbótin til símafólksins í 13. gr. kemur ekki launalögunum við. — Af hálfu fjárveitinganefndar var lögð sú fyrirspurn fyrir símastjóra, hversu mikilli upphæð dýrtíðaruppbót þess símafólks, sem ekki er getið í launalögunum, myndi nema þegar reiknuð væri 100% uppbót af 2/3 launanna.

Gaf símastjóri þessa upphæð upp og gat þess um leið að minna gæti hann ekki komist af með. — Á þetta að vera nákvæmur útreikningur þó ómögulegt sje að ábyrgjast að ekki hafi eitthvað gleymst. Gekk nefndin út frá því að nægilega væri frá þessum lið gengið. (Fjármálaráðherra: Þetta er nægilegt).

Viðvíkjandi hinni fyrirspurninni er það að segja, að vegamálastjóri hjelt því fram að ekki yrði komist af með minni upphæð til aðstoðarmanna við mælingar o. fl., sem vitanlega þurfa meira kaup en áður vegna dýrtíðarinnar.

Þegar tekið er tillit til þess, að nú er lagt út í að gera óvenjulega margar og stórar vegabætur samkvæmt 13. gr., og auk þess að byggja brýr eftir sjerstökum lögum fanst nefndinni þessi umleitun vegamálastjóra hafa við full rök að styðjast.