08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg veit, að hv. deild mun kunnugt um það, að saltbirgðir þær, sem til eru, voru keyptar vegna sjávarútvegsins, svo að ekki ræki til þeirra vandræða, að þessi höfuðatvinnuvegur landsins gæti fyrir saltleysi ekki haldið í horfinu.

Var fyrirsjáanlegt, ef stríðið hætti fljótlega, að verðtap mundi verða á saltinu, en engan gat grunað um stríðslokin. En brátt fyrir það, þó þessi óvissa væri yfir saltversluninni, þá taldi landsstjórnin skyldu sína að kaupa salt, enda varla von, að aðrir en landsstjórnin tækju þá áhættu á sig. Svo hefir nú og farið, sem vonlegt var, að landsverslunin sat með saltbirgðir, er stríðið hætti, og verðfall á þessu þarf nú að vinnast inn, og eðlilegast, að saltnotendur greiði hallann, þar sem áhættan var tekin vegna þeirra.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að æskilegt væri að vita, hvernig saltverslunin stæði, og er það eðlileg ósk og krafa.

Gaf jeg upplýsingar um það í hv. Nd., og er sjálfsagt, að jeg geri það einnig hjer.

(Hjer er eyða í hndr., sem ræðumaður hefir ekki fylt.)

Ekki er gott að segja. hve fljótt þessi halli vinst inn. Árið 1917–18 voru flutt inn ca. 20 þús. tonn af salti, og myndi hallinn þá, með sama innflutningi, vinnast upp á 4 árum.

Áður en stríðið hófst var flutt inn árlega að meðaltali ca. 40 þús. tonn, og mætti gera ráð fyrir slíkum innflutningi, næðist hallinn miklu fyr inn.

Mjer skilst, að allir sjeu sammála um að ná þessum halla inn með tolli.

Eins og kunnugt er, var tekin einkasala á kolum, til að ná upp samskonar halla á kolaversluninni, og hefði einnig mátt gera það með saltið, en mikla óánægju mundi það hafa vakið.

Landsverslunin lagði til, að saltverðið yrði fært niður sem fyrst, til að gera notendum þess hægra fyrir, en jafnframt var stjórninni og henni ljóst, að hallanum yrði að ná inn með tolli, og er því þetta frv. í raun og veru ekki annað en liður í þeim ráðstöfunum, sem stjórnin hefir gert til þess að greiða fyrir sjávarútveginum.

Meiningin er alls ekki sú, að gera saltið að tollstofni, frekar en orðið er, heldur einungis sú, að ná upp þessum halla.

Jeg skal geta þess, út af ummælum hv. þm. Ísaf. (M. T.) um 3. gr. frv., að brtt. við hana er komin inn í frumvarpið frá þeim hv. þm. í Nd., sem hlyntastir eru sjávarútveginum, og mun þeim ekki hafa þótt skifta miklu, þó svo stæði á, að nokkrar krónur slæddust inn í landssjóðinn um leið og upp væri gert.

Óheppilegt er, hversu langur dráttur er orðinn á að afgreiða þetta frv. Saltskip koma til landsins svo að segja daglega, og tapast tollur af þeim farmi, er þau flytja. Vona jeg, að hv. deild afgreiði frumvarpið fljótt.

Jeg þykist mega treysta því, að frumvarpið nái fram að ganga þar sem tollur sá, er ræðir um í því, er í raun og veru ekki annað en endurgreiðsla á láni.