08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er misskilningur að kenna stjórninni um drátt þann, sem orðið hefir á meðferð þessa frv.; stjórnin lagði þvert á móti áherslu á það, að frv. yrði afgreitt sem fyrst. Fyrir Nd. var frv. lagt 15. júlí, upphaflega með 12 kr. tolli á tonnið, en þó lýsti stjórnin yfir því, að hún gæti fallist á að hafa tollinn 10 kr., en lyktir urðu þær á, að samkomulag varð þar í deildinni um 8 kr. toll af tonni. Fyrir hv. Ed. var frv. lagt þann 28. júlí, en nú er 8. ágúst. Það mun sönnu nær, að töfinni valdi gustur sá, sem stendur jafnan af hv. þm. Ísaf. (M. T.) gegn öllu, sem hann telur til álagna á sjávarútveginn; hv. þm. (M. T.) þolir ekki, að komið sje nálægt þeim atvinnuvegi á nokkurn hátt.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) hneykslaðist á því, er jeg hafði sagt, að hjer væri um endurgreiðslu á láni að ræða. Hv. þm. veit þó, að enginn kaupmaður togaði eða reyndi til þess að kaupa salt, og þess vegna, beint til þess að bjarga sjávarútveginum, var afráðið, að landssjóður keypti saltið. Hjer er því í raun og veru ekki um annað en lán að ræða. Það hefði verið gaman að heyra hljóðið í sumum, þar á meðal hv. þm. Ísaf. (M. T.), ef stjórnin hefði ekki tekið þetta ráð. Það hefði verið hægt, og í samræmi við verslunarreglur, að selja þessa vöru saltið, við því verði, sem hún stóð landinu í, en stjórnin sýndi þessum atvinnuvegi þá linkind, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) svo nefnir, að lækka verðið jafnskjótt sem hægt var, og leggur nú þar að auki til þess, að frestur verði á endurgreiðslunni, svo að lánið greiðist á 4 árum.

Jeg fæ ekki sjeð neina rjettmæta ástæðu til þess að vera á móti frv., og það er ekki þýðingarlaust fyrir landið að fá lánið endurgreitt á stuttum tíma. Hv. þm. Ísaf. (M. T.) segir, að annarsstaðar sje ætlast til þess, að lán út af ófriðarráðstöfunum sjeu endurgreidd á mörgum árum. Jeg skal geta þess, að jeg hefi átt tal við marga fjármálamenn, sem allir eru einhuga um það, að ná beri inn halla þeim, sem af ófriðnum hefir leitt, sem fyrst, enda er það skiljanlegt, þar sem þjóðarhagir hafa batnað sumsstaðar stórkostlega við stríðið.

Ástæður þær, sem hv. þm Ak. (M. K.) færði fyrir því að hraða málinu, ættu að vera öllum auðskildar, með því að landssjóður getur tapað miklu fje, ef málið er dregið, en hins vegar er von á mörgum skipsförmum á næstu vikum. Æskilegast væri því, að 3. umr. færi fram á morgun, eða helst í dag, ef þess væri kostur.