08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vil geta þess, að jeg greiði frv. hiklaust atkvæði mitt, og að jeg tel þetta rjettan veg. Þar sem háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) tók það fram, og fanst hann hafa hendur í hári hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), að saltkaupin væru gerð fyrir landið í heild sinni, þá er það rjett en eins rjett er það, að saltið er mest notað af sjávarútveginum, og þessi ráðstöfun því mest fyrir hann gerð. En þegar hallinn á saltinu er fenginn inn, með því að leggja toll á það, þá kemur tollurinn nákvæmlega í sömu hlutföllum niður á atvinnuvegi landsins og hagnaðurinn áður við kaupin

Sjávarútvegurinn þarf saltið við fiskinn og síldina, landbúnaðurinn í kjöt og gærur og svo eru heimilisnotin. Ef skatturinn væri lagður á eitthvað annað, þá kæmi hann ranglátlega niður, og gæti hæglega lent á mönnum, er ekkert salt nota — nema til matar — og ættu því að vera lausir þessara mála.

Annars er það víðar en hjá ríkissjóði, sem halli hefir orðið á saltkaupum. Í fyrra var t. d. hvergi fáanlegt salt í kringum Hólmavík um þær mundir er þorskveiðar byrja þar. Jeg var þá grátbeðinn um að útvega salt, og þar sem þörfin og nauðsynin var til staðar, þá símaði jeg til landsverslunarinnar og bað hana um að senda salt norður með fyrstu ferð. Þetta var gert, saltið kom, en fiskurinn ekki, svo að saltið liggur ónotað enn. Hin verslunin, er fjekk saltbirgðir sínar seinna eða er að fá þær nú, og því ódýrari, getur vitanlega selt salt sitt ódýrara, svo verslunin, sem hljóp undir bagga til hjálpar, verður að súpa seyðið af hjálpsemi sinni og bíða tap á því.