19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Mjer virðist að umr. ætli að taka ærinn tíma, sem annars er af skornum skamti. Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir gert langa og ítarlega grein fyrir brtt. nefndarinnar. Og þó jeg geti ekki fallist á þær að öllu leyti, þá mun ekki duga að deila við dómarann því að þessi nefnd er sterk, þar sem fullur þriðji hluti hv. deildarmanna eiga sæti í henni.

Um brtt. háttv. fjárveitinganefndar get jeg sagt það, að mjer falla flestar þeirra vel í geð, og skal jeg ekki lengja umr. með því að fara frekar út í þær. Aftur á móti skal jeg leyfa mjer að minnast á sumar brtt. einstakra hv. þingdeildarmanna.

Brtt. á þgskj. 893, frá háttv. þm. Snæf. (H. St.), sem háttv. 1. þm. G.-K (B. K.) talaði allítarlega um, get jeg ekki felt mig við. Þessi tillaga fer fram á, að á þessu þingi sje veitt upphæð til verndunar íslensku þjóðerni vestan hafs. Jeg vildi heldur að farið hefði verið fram á fjárveitingu til þess að styðja að því og greiða götu fyrir því, að góðir drengir hyrfu þaðan heim hingað, frekar en áður hefir verið. Aftur á móti mun jeg ekki leggjast á móti brtt. á þgskj. 891, frá sama háttv. þingdeildarmanni, og eigi heldur brtt. á þgskj. 907, viðvíkjandi Búnaðarfjelaginu. Jeg er þar á sama máli, að einfaldara sje að halda fyrirkomulaginu óbreyttu eins og það hefir verið að undanförnu.

Þá er brtt. á þgskj 823. Það er ekki vafi á því, að hjer er um tvær bryggjur að ræða.

Önnur þeirra er ný, og hefir verið veittur styrkur til hennar í fjárlögunum, en þetta er eldri bryggjan. Mjer er kunnugt um, að gamla bryggjan er á þrautalendingarstað austan Blöndu, og það er óumflýjanlegt að viðhalda henni, þótt nýja bryggjan komi. Þessi bryggja hefir orðið fyrir áföllum, sem er mjög kostnaðarsamt að bæta úr. Og það er ekki eins dæmi að þingið hlaupi undir bagga þegar líkt stendur á. Aðstaðan virðist vera nákvæmlega sú sama hjer eins og á Húsavík, en þar hefir verið beðið um styrk til að bæta skemdir á bryggju, og lítur út fyrir að veittur muni verða í fjárlögunum. Jeg vil því mæla með þessari till., og það því fremur, sem hjer er ekki að ræða um nema af kostnaðinum, og upphæðin má ekki fara fram úr 2000 kr., þó aðgerðin yrði hlutfallslega hærri.

Jeg skal svo ekki minnast á fleiri brtt., en mun með atkv. mínu sína afstöðu mína til þeirra.