21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

67. mál, póstlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki mikið um frv. þetta að segja.

Í greinargerðinni er þess getið, að nefndin flytur það eftir tilmælum hæstv. stjórnar eða hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.). Og ef honum þykir ástæða til frekari skýringa en jeg læt nú fylgja frv., mun hann koma með þær.

Ef frv. þetta verður samþ., er það sjálfgefið, að niður fellur frv. það, sem hjer hefir legið fyrir, um framhald á hækkun burðargjaldsins, því að með frv. þessu koma í gildi samningar þeir, sem póstmeistari gerði í utanför sinni, t. d. ákvæðin um burðargjald milli Íslands og Danmerkur.

Hjer eru gerðar ýmsar breytingar. Meðal annars er burðargjald lækkað frá því, sem nú er. En það er álit póstmeistara, að það muni ekki verða til þess að rýra tekjurnar.

En þá eru auk fjárhagsatriðanna önnur atriði, t. d. það, sem stendur í 1. gr., um breyting á póststjórninni, þannig að komi aðalpóstmeistari, er standi beint undir ráðherra, en sje yfirmaður póstmálanna allra. Ætti sú breyting ekki að kosta svo mjög mikið, en bæta þó mikið um.

Hingað til hefir svo verið til hagað, að stjórnarráðið hefir haft á hendi brjefaskifti um smávægileg póstmál, þótt ekki væri nema einn böggull, ábyrgðarbrjef eða póstkrafa, sem ekki hafði komið fram á rjettum tíma. Þekki jeg það af gamalli reynslu, hvílíkt umstang það hefir verið.

Með þessari breytingu ættu ýmsar krókaleiðir að falla niður og með því sparast bæði ómak og tilkostnaður.

Þá eru enn þá nokkrar nýungar, sem jeg mun ekki fara út í að sinni.

En þar sem frv. kemur frá nefnd, sje jeg ekki ástæðu til að vísa því til nefndar aftur.