19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Guðmundur Ólafsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 823, og skal jeg ekki vera margorður um hana, og það því síður sem háttv. 1. þm. Rang. og hæstv. atvinnumálaráðherra hafa minst hlýlega á hana. Orsökin til þess, að jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa brtt., er sú, að sú eina bryggja, sem nú er til á Blönduósi skemdist í ofviðri og sjógangi síðastliðið haust. Fremsti búkkinn, eða hausinn, er gerður var úr sterkum og dýrum plönkum, brotnaði í spón og eyðilagðist gersamlega, og meiri skemdir urðu á henni. Í sumar hefir verið gert við bryggjuna til bráðabirgða, til að koma í veg fyrir frekari skemdir, en af vanefnum þó, því að ómögulegt var að fá efni til viðgerðarinnar nógu snemma, því að þar er mjög brimasamt, eins og hv. þingdm. er kunnugt, svo að eigi er hægt að fást við bryggjusmíði síðari hluta sumars. Fáist þingið ekki til þess að hlaupa undir bagga, verður hjeraðið að standa straum af viðgerðinni, því að svo búið má ekki standa. Það er öllum kunnugt, að þessi höfn er ein af verstu og brimasömustu höfnum hjer við land, og mundi upp- og útskipun og fólksflutningur úr landi og í land oft og einatt vera með öllu ómögulegt ef bryggja þessi væri ekki.

Það skal tekið fram, að Alþingi veitti fyrst fje til bryggjubyggingar á Blönduósi 1893, og lagði þá til 1/3 hluta byggingarkostnaðarins, eða 5000 kr., úr landssjóði. 1907 var bryggjan lengd, og lagði landssjóður þá enn fram 4000 kr. styrk, svo að langan tíma hefir það tekið fyrir hjeraðið að fá nægan fjárstyrk til þessa nauðsynlega fyrirtækis.

Sumum kann að vera óljúft að veita þennan styrk, þar sem önnur bryggja á Blönduósi er tekin upp í fjárlögunum. En þótt Blönduós sje ekki fjölmennur kaupstaður, þá er þess að gæta, að áin Blanda skiftir honum í tvent, svo að í raun og veru má skoða hann sem tvo kaupstaði. Kaupmenn, sem sunnan árinnar búa, verða því að flytja allar vörur sínar talsvert langan veg á landi og yfir um ána, þó á land sjeu komnar við bryggjuna: og einmitt sú bryggjan, sem er í fjárlögunum, á að koma sunnan árinnar, til þess að bæta úr erfiðleikum þeirra, sem þar búa. Þar sem gamla bryggjan er var — og er enn — álitinn besti staðurinn, svo ekki getur komið til mála að leggja hana niður, því að hún verður altaf þrautalendingin, þegar eitthvað verulegt er að veðri.

Fjárveitingin til bryggjunnar sunnan árinnar er endurveiting; fjeð var fyrst veitt 1915, 7500 kr., en vegna dýrtíðarinnar og erfiðleika á því að fá efni varð þá eigi, og hefir eigi orðið síðan, úr því að framkvæmdir yrðu á verkinu. Til skýringar skal jeg leyfa mjer að lesa upp ummæli Th. Krabbe vitamálastjóra um þetta efni, í brjefi til mín, dags. 13. þ. m.....1)

Jeg vænti þess, að jeg þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta til þess, að háttv. þingdm. sjái, hvert nauðsynjamál hjer er um að ræða.

) Hjer er eyða í hndr.