21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

67. mál, póstlög

Forsætisráðherra (J. M.):

Út af því, að mín er getið í greinargerð póstmeistara með frv., skal jeg lýsa yfir því, að það er rjett, að það var fyrir hvatningu mína, að hann fór utan í vor.

Í utanför minni í haust sem leið athugaði jeg nokkuð mál þetta og áleit þá rjett, að póstmeistari færi utan og tæki þátt í samningum um það við önnur ríki, eftir að Ísland var orðið fullvalda.

Mjer var það þá þegar ljóst, að hjer, sem í öðrum ríkjum, þurfti að vera aðalpóstmeistari, nokkurskonar undirráðherra, sem hefði allmikið sjálfstætt vald og umboðsvald út á við. Á þessu er frv. þetta bygt.

Þykir það því líka rjett, að þessi póstmeistari standi beint undir ráðherra, en þurfi ekki að leita til skrifstofunnar.

Í raun og veru verða því póstmálin mest undir stjórn aðalpóstmeistara.

Hann getur því ekki verið um leið póstmeistari í Reykjavík.

Alt þetta kemur fram í greinargerðinni, og þarf jeg ekki að fara um það frekari orðum. En þar sem hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) er fjarstaddur, fanst mjer rjett að taka þetta fram.

Vil jeg svo þakka háttv. fjárhagsnefnd fyrir að hafa tekið málið að sjer til flutnings.