28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að jeg afneitaði blaðinu, sem hefði stutt mig. Þetta er ekki rjett. Jeg afneitaði þeirri aðferð að berja niður annan aðiljann. Jeg vil, að markaðurinn sje frjáls. Þetta hygg jeg að jeg hafi sýnt með ritstjórn minni. Jeg var ritstjóri að samvinnufjelagsblaði í 10 ár, og hygg jeg, að ekki sje hægt að bera mjer það á brýn, að jeg hafi ráðist á kaupmannastjettina; að minsta kosti hefir hún ekki kvartað undan mjer. Jeg vil, að báðar þessar stefnur berjist óhindraðar í riti og löggjöf.