14.08.1919
Efri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

67. mál, póstlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það má segja, að margar stoðir og styrkar standi undir þessu frv. Fjárhagsnefnd Nd. hefir flutt það, að undirlagi stjórnarinnar, en frv. er samið af póstmeistara, þeim manninum, sem mesta og besta þekkingu hefir á þessum málum. Frv. gekk greiðlega í gegnum hv. Nd.; þar var að eins bætt inn einni grein, 9. gr., um það, hve nær lögin skuli öðlast gildi.

Í nál. er minst á flestar þær breytingar, sem frv. gerir á núgildandi lögum, og þarf því ekki miklu við að bæta. Jeg vil þó að eins taka fram, að samkvæmt 3. gr. er nú ætlast til þess, að póstsendingar með skipum sjeu háðar öðrum skilyrðum en áður. Samkvæmt núgildandi lögum er greitt ákveðið gjald eftir þunga, en eftir frv. er ætlast til þess, að póststjórnin semji sjerstaklega um þessa flutninga og flutningsgjaldið verði ákveðið í samræmi við flutningsgjald á öðrum vörum Má búast við, að póstsendingar með skipum verði talsvert ódýrari með þessu móti.

Burðargjaldið á yfirleitt að hækka frá því, sem áður var, en þó er burðargjald fyrir brjef og bögla sett mun lægra en það er nú samkv. lögum nr. 40, 26. okt. 1917. Að vísu er á ferðinni frv. um framlengingu á þeim lögum, en því mun ekki ætlað að koma fram, ef þetta verður samþykt.

Nefndinni fjell illa nafnið „aðalpóstmeistari“ og vildi heldur „póstmálastjóri“, en hún hefir samt ekki sjeð ástæðu til að flytja brtt. um þetta atriði.

Jeg skal ekki fjölyrða frekar um frv., en leyfi mjer að leggja til, fyrir nefndarinnar hönd, að hv. deild samþykki frv. óbreytt.