23.07.1919
Efri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

81. mál, sala á þjóðjörðinni Ögri og Sellóni

Flm. (Halldór Steinsson):

Jeg hefi tekið fram í greinargerð frv., að jeg muni gera nákvæmari grein fyrir tildrögum þessa máls við flutning þess. Verð jeg þar aðallega að styðjast við upplýsingar frá hreppsnefndinni í Stykkishólmi.

Íbúatala Stykkishólms er hjer um bil 650, og þótt aðalatvinnuvegurinn sje sjávarútvegur, verður eigi hjá því komist að hafa nokkurt kúahald til mjólkur en bithagar í Stykkishólmi eru afaróhentugir og ljelegir. Þar eru nú um 50 kýr, og ber því brýn nauðsyn til að fá land til kúabeitar.

Ögur er eina landjörðin í hreppnum, og þar eru hagar langtum betri en í Stykkishólmi; er hreppnum því bráðnauðsynlegt að fá þessa jörð keypta, því með öðru móti getur hann aldrei verið öruggur um bithaga þar. Annað aðalatriðið í þessu máli er, að mótekja er mjög að þrotum komin í Stykkishólmslandi, en í Ögri er nógur mór.

Mál þetta hefir verið mikið rætt innanhjeraðs, og á síðasta vetri var hreppsnefndinni falið að sækja um kaup á jörðunum Ögri og Sellóni. Sellón er eyðiey, sem liggur milli Ögurs og Stykkishólms. Ey þessi hefir áður verið bygð, en árið 1912 sagði ábúandinn upp jörðinni, og var hún þá lögð undir Ögur. Síðasta vetur sagði bóndinn á Ögri jörðinni lausri, og varð þá að samkomulagi milli stjórnarráðs og umboðsmanns annars vegar og hreppsnefndarinnar í Stykkishólmshreppi hins vegar, að byggja skyldi jörðina að eins þetta yfirstandandi fardagaár, með tilliti til þess, að hreppurinn fengi hana keypta á þessu þingi; er því frá þeirri hlið ekkert til fyrirstöðu, að hreppurinn geti keypt jörðina. Á jörðinni er steinsteypuhús, og voru veittar til þess 3 þúsundir króna úr umboðssjóði. Skal jeg geta þess, að endurskoðunarmönnum landsreikninganna 1910 fanst undarlegt, að jafnmikilli upphæð skyldi varið til svo ljelegrar jarðar. Aðalverð jarðarinnar er falið í, hvað hún liggur nálægt Stykkishólmi. Á síðasta vetri var jörðin virt, og matið staðfest fyrir rjetti. Var hún þá metin 10 þúsund króna virði, en það mun of hátt metið, og er þar tekið tillit til þess, að þetta hús er á jörðinni, en það er þó nú orðið mjög úr sjer gengið.

Jeg hefi hjá mjer öll plögg þessu máli viðvíkjandi, svo sem umsókn hreppsnefndar, samþyktir hreppsfunda, matsgerð á jörðinni og meðmæli sýslunefndar. Öll þessi plögg mun jeg leggja fyrir hv. nefnd, er á að fjalla um málið.

Í frv. er ekki nefnt verð jarðarinnar; vildi hreppsnefndin láta það á vald Alþingis, hvort verðið væri ákveðið með lögum, eða stjórninni veitt heimild í lögunum til að ákveða verðið.

Að lokum óska jeg, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar, og getur hún fengið hjá mjer öll plögg málinu viðvíkjandi.