18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

81. mál, sala á þjóðjörðinni Ögri og Sellóni

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Oddviti hreppsnefndar Stykkishólmshrepps hefir í brjefi, dags. 14. f. m., beðið Alþingi að veita landsstjórninni með lögum heimild til þess að selja hreppnum þjóðjarðirnar Ögur og Sellón í Stykkishólmshreppi, eftir reglum þeim, sem nú gilda um sölu þjóðjarða til ábúenda.

Stykkishólmshreppur á nú alt land jarðarinnar Grunnasundsness, sem kauptúnið er bygt á. Þetta land er nú orðið allsendis ónógt kaupstaðarbúum, sem nú eru orðnir um 650 að tölu, og er því brýn þörf á viðbótarlandsnytjum.

Auk Grunnasundsnesslands er Ögur eina landjörðin innan endimarka hreppsins, og liggur því betur við, kaupstaðnum til notkunar, en nokkurt annað land. Ögur er 27 hndr. að dýrleika. Jarðgæðin, sem talin verða, eru tún, 8 vallardagsláttur að stærð, en fóðrar að eins eina kú. Slægjurnar eru mestmegnis smáblettir innan, um bithaga. Gefa þær af sjer ca. 200 hesta í meðalári. En langstærstu landsnytjarnar eru fólgnar í góðri mómýri, með miklu móttaki. Kemur það sjer sjerstaklega vel fyrir kaupstaðarbúa, því að mótak er nú um það bil á þrotum í því landi, sem þeir eiga að. Enn fremur er talið til jarðnytja dálítið æðarvarp, er gefur af sjer um 2 tvípund af dún árlega. Beitiland er þar allgott, einkum þó fyrir sauðfje, ásamt fjörubeit.

Sellón er eyðijörð, 24 hndr. að stærð. Landsnytjar þar eru 2½ kýrfóður af góðu heyi, haustbeit fyrir 100 sauðkindur og 4½ tvípund af dún árlega. Talið er, að þessar jarðir, sem síðan 1911 hafa verið sameinaðar í einni ábúð, geti framfleytt 3 kúm. 120 sauðkindum og 8 hrossum. 5 kúgildi fylgja eigninni.

Jarðakaupin hafa verið í alla staði vel og formlega undirbúin. Meðal annars hefir, fyrir milligöngu umboðsmanns og með samþykki stjórnarráðsins, verið svo um búið, að jörðin er laus úr ábúð í næstu fardögum.

Jeg skal geta þess að dýralæknirinn þar vestra, sem situr í Stykkishólmi, gat þess við nefndina, út af þessum jarðakaupum, að eyjan Sellón væri sjerlega hentug til slægjuafnota fyrir dýralækninn þar. Í sambandi við það er sú bending, sem nefndin hefir gefið hæstv. landsstjórn í nál. á þgskj. 377, að vert sje að tryggja dýralækni slægjuafnot á þessari eyju, gegn sömu leigu og aðrir bjóða, um leið og samið verður um kaupin.

Frv. þetta hefir fengið greiðan framgang í hv. Ed., þar sem það er fram komið. Nefndin hefir og stuttlega gert grein fyrir sínu áliti um söluverð eignarinnar, í niðurlagi 1. málsgreinar í nál. á þgskj. 377.

Nefndinni þykir yfir höfuð vel til fallið, að Stykkishólmur fái þessa eign við sanngjörnu verði til fullrar eignar og afnota, og væntir þess, að hv. deild samþykki frv. án frekari málalenginga.