19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að lengja umr. mikið, þar sem brtt. fjárveitinganefndar hafa yfirleitt fengið góðar undirtektir.

Eina brtt., sem nokkrum mótblástri hefir mætt, er brtt. um orðabókarstyrkinn, og þar sem háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) hefir komið fram með brtt. við þann lið, er ekki nema eðlilegt, að skiftar skoðanir sjeu milli hans og mín sem frsm. nefndarinnar.

Brtt. hans gengur í þá átt, að bætt sje við þriðja manninum til að vinna að orðabókinni, og vill hann veita honum álitlega launaupphæð. Hins vegar viðurkennir hann, að ekki hvíli sama skylda á Alþingi gagnvart þeim manni sem gagnvart síra Jóhannesi Lynge, en þess sje aftur á móti að gæta, að hann hafi betri undirbúningsmentun til að taka þetta starf að sjer, þar sem hann hafi lokið prófi í málfræði við Kaupmannahafnarháskóla. En þótt segja megi, að Jakob Jóh. Smári hafi betri undirbúningsmentun hlotið en faðir hans, þá er þá síra Jóhannes viðurkendur mikill og góður íslenskumaður.

En aðalatriðið er, að ekki er hægt að losa sjera Jóhannes með sæmilegu móti af fjárlögunum, og ef styrkur til hans væri ekki tekinn upp í þennan lið, hefði orðið að bæta honum inn í 18. gr., án þess að hann hefði sjerstakt starf með höndum. En með því að láta hann vinna að orðabókinni má búast við, að starf hans muni koma að notum í framtíðinni, sjerstaklega þar sem svo er ákveðið, að orðasafn hans skuli verða eign landsins, enda vita þeir, sem þekkja hann, að hann muni ekki liggja á liði sínu.

Hitt, að fara að bæta ótilneyddir mönnum við þetta starf, sje jeg ekki að sje rjett, því þegar farið er að veita þeim styrk í fjárlögum ár eftir ár, mun reynast erfitt að losna við þá. En eftir því sem málum er nú komið, er ekki að vænta, að verkið horfi betur við, þótt einum manni sje bætt við, því eftir umsögn orðabókarhöfundanna sjálfra þarf að bæta mörgum mönnum við, ef sjást á fyrir endann á verkinu. Og enn þá er ekki fundinn neinn grundvöllur fyrir því, hve yfirgripsmikil orðabókin eigi að vera, m. ö. o. hvort hún eigi að taka bæði yfir fornmálið og nýja málið, eða byrja síðar, t. d. einhvern tíma á miðöldunum.

Ef fornmálið yrði tekið með, yrði verk þetta mjög yfirgripsmikið, en auðvitað að sama skapi minna, ef sú yrði niðurstaðan, að því yrði slept. Má segja, að fornmálið sje orðið alheimseign, og fleiri til að varðveita það en vjer Íslendingar.

Jeg hygg því að orðabókarmálinu sje ekki borgið með því, þó þessum manni sje bætt við. Ef sjá á fyrir endann á verkinu, verður að bæta mörgum við í nánustu framtíð. Auðvitað er gert ráð fyrir því, að það verði gert seinna, en þá kemur líka safn þeirra tveggja manna. er teknir eru upp í liðinn, að notum.

Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) áfeldist fjárveitinganefndina fyrir það, að hún hefði lagt til, að skálda- og listamannastyrkurinn væri færður niður, en kannaðist þó við rök hennar fyrir þessari lækkun; en þau eru, að 3 skáld, sem notið hafa ríflegs styrks, eru nú dáin, en eitt flutt aftur í 18. gr. Áleit hann samt sem áður, að bókmentunum væri svo mikill gróði að styrknum, að ekki væri ástæða til að lækka hann frá því, sem fjárveitinganefnd Nd. og Nd. hefði fallist á.

Fjárveitinganefnd Ed. fanst það ríflegt að leggja til, að styrkurinn væri hækkaður um 5 þús. kr., frá því sem áður var, enda þótt 4 styrkþegar fjellu burt, sem notið höfðu allmikils styrks.

Um gróðann af styrknum geta verið skiftar skoðanir, því þó svo kunni að fara, að fleiri skáld komi fram og bókmentirnar græði við það, er þó þess að gæta, að þeir starfskraftar sem ganga til bókmenta dragast frá öðrum greinum. Jeg hygg, að ekki sje rjett að fara að ala skáldskaparsótt upp í mönnum, líkt og sagt er að hafi átt sjer stað í 4. bekk mentaskólans í vetur, því þar fengust allir nemendurnir við að yrkja, að því er sagt er, og væri ekki holt, ef hugur mentamanna okkar snerist eingöngu í þessa stefnu.

Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) talaði um það, að ástæður þær, er nefndin bar fram í nál. fyrir því, að hún væri mótfallin verðlaunum fyrir listaverk, væru ekki frambærilegar. En eins og þar er tekið fram, væri einkennileg aðferð að verðlauna fyrst listaverk og kaupa þau svo uppsprengdu verði á eftir. Hitt virðist eðlilegra, að kaupa þau verk, er geta sómt sjer í listasafni landsins, en ekki er víst, að listamennirnir geti selt sjálfir. Gæti það oft orðið þeim góður greiði, en um leið orðið til þess, að landið eignaðist góða gripi.

Man jeg svo ekki, að veist hafi verið að brtt. fjárveitinganefndar frekar en nú er talið. Hv. þm. Snæf. (H. St.) hneykslaðist á því, að í nál. er sagt, að styrkurinn til dr. Helga Pjeturss sje hækkaður fyrra ár fjárhagstímabilsins, með tilliti til þess, að hann eigi því fremur hægra með að leita sjer lækninga. Nefndin fann þetta ekki upp hjá sjálfri sjer, heldur fjekk hún vitneskju um það annarsstaðar frá, að hann ætlaði að sigla til að leita sjer lækninga. Og óþarft er fyrir þm. Snæf (H. St.) að hneykslast á þessu, af þeirri ástæðu, að það sje einsdæmi að veita mönnum styrk til lækninga, því ekki er óvenjulegt að styrkja þá sjúklinga til utanfarar, sem ekki hafa getað fengið læknishjálp hjer á landi við sjúkdómum sínum, svo sem húðsjúkdómum o. fl.

Án þess að það sje mitt að verja styrk þann sem stjórnin hafði ætlað þessum manni, vil jeg þó minna á það, að styrkurinn til hans var þó 300 kr. meiri ætlaður hjá stjórninni en laun hins hv. þm (H. St.) hafa verið hingað til.

Um vísindalega starfsemi þessa manns skal jeg ekki dæma, enda tel jeg mig ekki færan um það. En það verður að teljast eðlilegt, þótt hæfileikar hans sjeu miklir og hann hafi unnið mikið, að hann geti ekki afkastað miklu nú, eins og heilsu hans er farið, og því líti menn fremur á það, sem hann hefir unnið, og það, sem hann kann að vinna, ef hann fær bót.

Sem frsm. fjárveitinganefndar hefi jeg ekki fleira að segja. Aðrir tillögumenn hafa fært ástæður fyrir tillögum sínum, og þær annaðhvort verið teknar gildar af nefndinni, eins og till. hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), eða nefndin látið atkvæði nefndarmanna óbundin, eins og um brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.).