22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Það er svo að heyra, sem sumir þingdm. vilji hafa stuttar umr., og skal jeg því vera fáorður.

Fjárveitinganefnd hefir ekki komist hjá því að bera fram brtt., sem ganga í þá átt að hækka útgjöldin í fjárlagafrv. nokkuð frá því, sem þau voru eftir 2. umr., og liggur í augum uppi, að nefndin hefir ekki gert það að gamni sínu, enda eru brtt. þannig vaxnar, að vart verður hjá því komist að veita upphæðir þær, sem farið er fram á, þótt sumar hafi að vísu ekki haft atkvæði allra nefndarmanna, en að sjálfsögðu hefir nefndin enga tillögu flutt, sem ekki hefir haft meiri hluta innan hennar.

Brtt. þær, er nefndin hefir flutt, hækka útgjöldin um samtals 16,800 kr. og ef lagðar eru saman gjaldaupphæðir á brtt. þeim, er hv. þingdm. hafa flutt verður það samtals 24,500 kr. út af fyrir sig.

Að eins ein tillaga hefir komið fram, er hefir útgjaldalækkun í för með sjer á einum lið, að upphæð 1200 kr. á ári, eða 2400 kr. á fjárhagstímabili. Ef lagðar eru saman útgjaldahækkanir á brtt fjárveitinganefndar og brtt. einstakra þm., og þessar 2400 kr. dregnar frá, nemur hækkunin samtals kr. 39,900 við þessa umr., ef allar brtt. verða samþyktar; en varla er hægt að gera ráð fyrir, að svo verði, heldur má búast við, að einhverjar brtt. verði feldar, bæði fyrir fjárveitinganefnd og einstökum þm.

Skal jeg svo minnast örfáum orðum á brtt. fjárveitinganefndar, í þeirri röð sem greinar þær í fjárlagafrv. eru, sem þær eiga við.

Það er þá fyrst brtt. við 12. gr., þess efnis, að íbúum Ólafsfjarðar verði veittur 1500 kr. styrkur hvort árið, til að launa lækni, ef þeir taka til þess úrræðis, að afla sjer sjerstaks læknis.

Þótt frv. það um stofnun sjerstaks læknishjeraðs í Ólafsfirði, er fyrir þinginu lá, næði ekki fram að ganga, voru þó allir á einu máli um það, að Ólafsfirðingar væru illa settir með að ná í læknishjálp. Þess vegna hefir fjárveitinganefndin gert það að tillögu sinni, að þeim verði veittur allríflegur styrkur, ef ráðist væri í að útvega sjerstakan lækni, enda sjest á aths., að styrkveitingin er bundin því skilyrði.

Aðrir hreppar, sem líkt hefir staðið á með, hafa gripið til þess úrræðis, að afla sjer sjerstaks læknis, og má þar benda á Hólshrepp. Sú framtakssemi mun hafa ýtt undir það að eina frv. um stofnun nýs læknishjeraðs, sem framgang fjekk í þinginu, tók til þess hjeraðs.

Önnur brtt. við 12. gr. er þess efnis, að aukalæknirinn á Ísafirði fái 2000 kr. styrk á ári. Hann hefir nú 800 kr. laun en þegar litið er til umbóta þeirra, sem orðnar eru á kjörum annara lækna, er ekki hægt að ganga fram hjá honum, þótt svo verði að líta á, að óþörf sje nú orðið staða sú, sem hann hefir haft með höndum. Hólshreppur er nú genginn undan læknishjeraðinu, og þegar litið er til þess að kona hjeraðslæknisins er próflærður læknir sjest, að Ísfirðingar sjálfir þurfa ekki að vera á flæðiskeri staddir, þó að enginn aðstoðarlæknir sje hafður þar. En nú gegnir þó enn sami maðurinn sem áður þessu starfi, og verður þá ekki gengið fram hjá honum, þannig að laun hans sjeu á engan hátt bætt.

Hitt er aftur álitamál, hversu há laun hann eigi að hafa.

Fjárveitinganefndin hefir lagt til, að hann fái 2000 kr. á ári, en álítur, að laun hans eigi ekki að vera í samræmi við laun lækna alment. Því ef hann fengi laun jöfn öðrum læknum, væri þess ekki að vænta, að hann sækti um nokkurt læknishjerað. En hins vegar er þó þess að gæta, að þar sem hjer er að ræða um 2000 kr. aukningu á laununum frá því, sem þau voru, býst jeg við, að það sje svo há uppbót, að sumir læknar fái hana litlu meiri.

Brtt. hv. þm. Snæf. (H. St.) gengur í þá átt, að læknir þessi fái 4000 kr. laun á ári í fjárlögunum, og eru þá laun hans miðuð við hæstu læknislaun. Ef læknir í lægsta launaflokki fær 2500 kr. árslaun, verða þau með dýrtíðaruppbót um 5000 kr. En í brtt. hv. þm. Snæf. (H. St.) er gert ráð fyrir, að aðstoðarlæknirinn á Ísafirði fái á ári 4000 kr. + 800 kr. = 4800 kr., og er þá sama sem enginn munur gerður á honum og öðrum læknum.

Býst jeg við, að hv. þm. Snæf. (H. St.) taki til máls um brtt. þessa, og skal jeg því ekki fjölyrða um hana að sinni.

Þriðja brtt. nefndarinnar lítur út sem orðabreyting, en er vitanlega efnisbreyting. Þar er farið fram á, að alt að því 35 þús. kr. verði varið árlega til launa póstafgreiðslumanna utan Reykjavíkur, Ísafjarðar, Akureyrar og Seyðisfjarðar, — en eftir frv. var sama upphæð ætluð til launa póstafgreiðslumanna utan Reykjavíkur.

Þessi breyting er bygð á umsókn frá sambandi starfsmanna ríkisins, og tók fjárveitinganefnd hana til greina, er sýnt hafði verið fram á, að þessi breyting hefði að eins 25% launahækkun í för með sjer til póstafgreiðslumanna utan þessara fjögra kaupstaða.

Samband starfsmanna ríkisins vildi ekki láta sjer nægja þessa einu launahækkun handa þessum starfsmönnum, póstafgreiðslumönnum utan kaupstaðanna, heldur fór einnig fram á það, að þeim væri veitt dýrtíðaruppbót að auki. Þetta gat nefndin ekki aðhylst en lagaði orðalag liðarins á þá leið, sem jeg gat um. Jeg vona, að hv. þingdeildarmönnum skiljist það, að hjer er hóflega farið í sakir hjá fjárveitinganefnd, og sjeu þeir hins vegar sammála nefndinni í því, að engin ástæða sje til þess að greiða póstafgreiðslumönnum utan kaupstaðanna neinar gríðarlegar fjárhæðir, með því að víðast hvar er póstafgreiðslan aukastarf, sem kunnugt er.

Þá kem jeg að 4. brtt. nefndarinnar, um það að veita Magnúsi dócent Jónssyni 1500 kr. árlegan styrk til rannsókna í kirkjusögu Íslands. Nefndinni var það ljóst, að hjer er um mikið verkefni að ræða, og engin skylda á dócentinum að rækja þær rannsóknir, þótt kennari sje í kirkjusögu við háskólann. Hins vegar er maðurinn mjög vel gefinn, framúrskarandi gáfaður og starfsmaður með afbrigðum. Þess vegna líkar nefndin ekki við að sinna umsókn hans, þótt ekki geti hún orðið við henni að fullu, eða lagt til að veita honum 2000 kr., eins og hann fer fram á. Það er líka sjerstök ástæða, sem mælir með þessum styrk sú sem sje, að Magnús er nú eini dócentinn við háskólann, sem hefir dócentslaun óbætt; dócentinn í læknisfræði hefir sjerstaka aukagetu og eins dócentinn í grísku. Það væri þess vegna ekki sanngjarnt að láta þennan mann búa við dócentslaunin ein, sem varla geta talist lífvænleg ein út af fyrir sig. En með þessari viðbót getur maðurinn helgað sig sínu eiginlega starfi, án þess að leita sjer aukaatvinnu.

5. brtt. nefndarinnar er borin fram vegna þess, að rektor mentaskólans hefir skýrt nefndinni frá því, að Sigfús Einarsson hafi sagt upp söngkenslu við skólann, auðvitað að nokkru leyti sökum þess, að hann fer utan og dvelst ytra í vetur. Nú skýrir rektorinn svo frá í umsókn sinni, að ómögulegt sje að fá nokkurn mann til þess að taka að sjer þessa kenslu með þeim launum, sem til þessa eru ætluð, og sá nefndin þá engan veg annan en að taka þann kost upp, að bæta launin með dýrtíðaruppbót, líkt og gert hefir verið um aðra starfsmenn svip aða, er laun taka eftir fjárlögum, enda betri leið en að setja hærri upphæð í launum, því að þar með mætti telja launin ákveðin um ókomna framtíð.

6. brtt. nefndarinnar er um styrk til lýðskólans í Bergstaðastræti. Hjer er auðvitað að eins um litla fjárhæð að ræða, en þó nokkurt principmál, hvort veita beri slíkum aukaskólum, sem einstakir menn halda uppi, styrk af almannafje.

7.–8. brtt. nefndarinnar eru báðar runnar af sömu rót. Hækkun þessara liða stendur í sambandi við umsókn frá bókbindaranum við söfnin, en henni fylgja sterk meðmæli landsbókavarðarins og þjóðskjalavarðarins. Umsóknin fer aðallega fram á það, að bókbindarinn verði tekinn í tölu fastra starfsmanna landsins, eða í launalögin. Umsóknin kom svo seint, er dagsett 17. sept., að þetta gat ekki komið til mála, enda býst jeg varla við, að fært hefði þótt að taka hana til greina að þessu leyti. Hitt er annað mál, að þessi maður þarf eins að fá bætt laun sín og aðrir menn, sem vinna í þjónustu landsins. Með hliðsjón af þessu, eru því báðir þessir útgjaldaliðir safnanna hækkaðir.

9. brtt. er um 2000 kr. styrk til bandalags íslenskra kvenna, til þess að senda fulltrúa á alþjóðaráðsfund kvenna, sem haldast á í Noregi næsta ár. Hv. deildarmönnum er nú sjálfsagt kunnugra um þetta bandalag en mjer. Jeg skal þó skýra frá því, að bandalag þetta, Bandalag íslenskra kvenna, tekur yfir 8 kvenfjelög hjer í Reykjavík. Fýsir það nú að komast inn í þetta alþjóðaráð kvenna, en í því eru sögð fjelög kvenna í 26 löndum í Evrópu. Í sumar sendi þetta íslenska bandalag fulltrúa á undirbúningsfund í Englandi á sjálfs sín kostnað, svo að aðstaða þess er verri en áður. Hugsjónir bandalags þessa eru eða virðast fagrar og lofsamlegar; hefir það meðal annars á stefnuskrá sinni að koma upp hjúkrunarhæli og barnaheimili í Reykjavík. Með hliðsjón af þessu og með því að þetta þing hefir verið mjög örlátt í fjárveitingum til þess að styrkja fjelög eða einstaklinga til að sækja fundi eða mót í öðrum löndum, þá vill nefndin mæla með því að sinna þessari fjárbeiðslu einnig, svo að kvenþjóðin verði ekki út undan höfð.

10. brtt. nefndarinnar fer ekki fram á nein aukin útgjöld, heldur að eins ábyrgð á nokkrum lánum, á sama hátt sem áður hefir tíðkast. Er þetta auðvitað ekki að skoða nema sem heimild fyrir stjórnina, og henni ætlað að hafa gát á því, að fyrirtækin sjeu svo stofnuð og þeim svo fyrir komið, að þau beri sig. Nefndin telur víst, að stjórnin leggi ekki út í þetta, nema fyrirtækin sjeu trygg.

Um brtt. þær, sem fram hafa komið frá einstökum þingmönnum, þarf jeg ekki að rökræða, en skal að eins geta um afstöðu fjárveitinganefndar gagnvart þeim.

Um brtt. á þgskj. 938 segir það sig sjálft, að nefndin er á móti henni, með því að hún hefir þegar tekið afstöðu til þess liðar fjárlaganna.

Brtt. á þgskj. 939 er meiri hluti nefndarinnar heldur hliðhollur.

Þá kem jeg að brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.), sem verið hefir mjög frjósamur á brtt. við þessa umr.

Nefndinni er ekki ljóst, á hverju byggist brtt. hans á þgskj. 932, um styrk til barnaskólans á Ísafirði, og mun nefndin ekki taka afstöðu til hennar fyr en hann hefir skýrt hana.

Þá leggur sami hv. þm. til að fella niður styrkinn til að þýða Faust. Fjárveitinganefnd leggur á móti þeirri brtt að svo komnu, enda væri annað illa í samræmi við tillögu hennar um styrk handa Magnúsi dócent Jónssyni. Það er að vísu svo, að þessi styrkþegi er ekki í vandræðum með að lifa, en hins er að gæta, að rangt væri að skilja einn dócentanna eftir, þegar hinir fá aukagetu.

Um styrk til Önnu Bjarnadóttur er það að segja, að nefndin treystir sjer ekki til þess að verða með honum, þótt gáfuð stúlka eigi í hlut og umsókn hafi legið fyrir, bæði munnlega og skriflega. Nefndin býst sem sje við, að ef þessi styrkur væri veittur, og styrkþegi þannig tekinn út úr öðrum stúdentum, þá myndi það draga þann dilk á eftir sjer, að aðrir stúdentar vildu fá svipaðan styrk.

Nefndin sá enga ástæðu til þess að fella niður athugasemdina við 16 gr. 17 og leggur því á móti brtt. á þgskj. 934.

Um styrk til leikfjelagsins lætur nefndin atkvæði óbundin.

Sama er að segja um styrk til dr. Helga Pjeturss.

Styrksaukinn til Sighvats Borgfirðings er svo lítill, að nefndin lætur hann afskiftalausan.

Þá kem jeg loks að brtt. á þgskj. 940, styrk til Byggingarfjelags Reykjavíkur. Það segir sig sjálft, með því að tveir nefndarmanna eru flutningsmenn þeirrar till., að þá hafi nefndin óbundar hendur um hana. En fyrir mitt leyti skal jeg lýsa yfir því, að jeg er ákveðinn andstæðingur till., ekki af því, að mjer vaxi fjárhæðin í augum, heldur af því, að jeg tel, ef till. verður samþ., að stigið sje það spor, sem óvíst er um, hvert stefnir, og ekki ólíklegt, að aðrir kaupstaðir komi á eftir. Jeg fæ ekki betur sjeð en að með þessu sje verið að ýta undir fólksflutninga úr sveitunum í kaupstaðina eða sama sem að styrkja fólk til þess að flytja úr sveitunum. Það hefði verið eðlilegra, að þingið hefði reynt til þess að stemma heldur stigu fyrir þessari útrás úr sveitunum en hitt.

Að öðru leyti skal jeg ekki að svo komnu tala meira, þótt ekki hafi jeg verið langorður eftir atvikum.