12.08.1919
Neðri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

113. mál, brúargerðir

Björn R. Stefánsson:

Jeg gat ekki verið ánægður með upplýsingar þær, sem hv. frsm. (G. Sv.) gaf um brú þá, er jeg með brtt. á þgskj. 328 fer fram á, að tekin sje inn í frv., nje aðstöðuna að henni. Það var auðheyrt á öllu, að hv. frsm. (G. Sv.) talaði þar af ókunnugleik miklum umsögn hans öll bar þess bersýnilegan vott. Að vísu játaði hv. frsm. (G. Sv.), að brú þessi væri á þjóðvegi, en vildi þó í öðru orðinu jafnvel draga úr því, eða jafnvel vefengja, að svo væri; og umferð um veg þennan taldi hann harla litla. Hvort umferðina eigi að telja mikla eða litla fer nokkuð eftir því, hvað til samanburðar er tekið. Jeg skal játa það, að umferðin má teljast fremur lítil, sje hún borin saman við umferðina á veginum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, eða umferðina á veginum úr Reykjavík austur yfir Hellisheiði. En sjeu margir aðrir þjóðvegir teknir til samanburðar við þennan veg, þá má telja umferðina um hann mikla. Hv. frsm. (G. Sv.) hefir sennilega aldrei komið á Eskifjörð, ef hann veit ekki, að ströndin hinum megin við fjörðinn er hrjóstrug og ekki heyskaparland, og að vegur þessi muni því ekki geta verið heybandsvegur Eskfirðinga. Það er að vísu satt, að Eskfirðingar þurfa að fá hey að, en þeir sækja það til Reyðarfjarðar á bátum, en draga það ekki að sjer á hestum. Annað hefi jeg ekki um málið að segja en að biðja hv. deild að henda ekki miklar reiður á því, sem hv. frsm. (G. Sv.) sagði um brtt. mína, því að hann talaði um hana af auðsjáanlegum ókunnugleik.