12.08.1919
Neðri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

113. mál, brúargerðir

Pjetur Jónsson:

Jeg er að bisast hjer með eina brú á þjóðvegi, sem hv. nefnd hefir gleymt að setja inn í frv. sitt; það er brúin á Reykjadalsá. Þykir mjer rjett að gera hv. þingdeild nokkra grein fyrir, hvernig hjer stendur á.

Í vegalögunum er svo ákveðið, að þjóðvegur skuli vera frá Einarsstöðum í Reykjadal að Reykjahlíð, en ekki tekið til, hvar hann eigi að liggja. Leiðirnar eru þrjár um að velja. Nyrsta leiðin er póstleiðin; hún liggur út að Grenjaðarstað, upp Laxárdal og þaðan yfir Hólasand, að Reykjahlíð. Þessi leið er lengst og einna lökust; þó er pósturinn látinn fara hana; en ekki geri jeg ráð fyrir, að þjóðvegur verði lagður þar, þegar að því kemur. Önnur leiðin er frá Einarsstöðum, þvert yfir í Laxárdalinn, yfir Laxá og sömu leið upp Hólasand. Hún hefir þann kost fyrir ríkissjóð, að hún liggur mestmegnis um óbygð, og því mun varla verða farið að kosta fje til aðgerða á henni nokkru sinni. Mjer fanst vegamálastjóra hjer um árið líka hún einna best, af því að minstu þyrfti upp á hana að kosta. Þriðja leiðin liggur fram Reykjadal og yfir stutta heiði, í Mývatnssveit, og þaðan upp að Mývatni og með fram því. Sú leið liggur að mestu eftir bygð. Hún er 2–3 kílómetrum lengri en miðleiðin, en 4–5 kílómetrum styttri en póstleiðin.

Á tveim hinum fyr nefndu vegum liggur leiðin bæði yfir Reykjadalsá og Laxá. En ef syðsta leiðin er farin, má fara sunnan við Mývatn, sýsluveginn sem nú er, og sleppa þá við Laxá; hún er allstór, og munar það landssjóð almiklu að sleppa við að láta brúa hana.

Vegamálastjóri tók ekki brú á Reykjadalsá á áætlun sína, af því að enn væri eigi ákveðið, hvar þjóðvegurinn skyldi liggja. Þriðja leiðin er upp Reykjadal og yfir heiðina þar, að Mývatnssveit norðanverðri.

Nú er það svo, að hver leiðin sem valin verður fyrir þjóðveg, þá verður yfir Reykjadalsá að fara. Og svo er Laxá á báðum nyrðri leiðunum, en við hana má sleppa á syðstu leiðinni með því að leggja þjóðveginn fyrir sunnan Mývatn. Ef nyrðri leiðirnar eru valdar, þarf að brúa á þeim bæði Reykjadalsá og Laxa. En jeg tek til að eins brú á Reykjadalsá, og fer ekki fram á tvær brýr, eins og þyrfti, ef önnurhvor hin leiðin væri valin. Jeg fer og fram á þetta af því, að jeg veit, að málsaðiljar munu helst kjósa, að þjóðvegurinn sje lagður fyrir sunnan Mývatn, og að Reykjadalsá verði brúuð einmitt á þeirri leið, enda verður þar framtíðarleiðin að sjálfsögðu.