12.08.1919
Neðri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

113. mál, brúargerðir

Stefán Stefánsson:

Jeg á hjer enga brtt., og skal því ekki verða margorður. Að eins ætla jeg að leyfa mjer að gera örstutta fyrirspurn til hv. samgöngumálanefndar. Í fjárlögunum fyrir 1918–1919 eru ætlaðar 85,000 kr. til brúargerðar á Eyjafjarðará, sem þó ekki verða notaðar á þessu fjárhagstímabili; og í fjárlögunum, sem nú liggja fyrir, eru 170,000 kr., ætlaðar til þessarar brúargerðar. Ef þetta frv. um brúargerðir verður samþykt á þinginu, geri jeg ráð fyrir, að fjárveitingarnar til brúargerða verði teknar út af fjárlögunum. En þá er mjer spurn: Hvernig hugsar hv. nefnd að haga skuli framkvæmd brúargerða þeirra, sem stjórnin hefir tekið upp í sitt fjárlagafrumvarp? Í athugasemdunum við það segir hún, ,,að ekki þyki rjett að draga nú lengur brúargerð á Eyjafjarðará, og að fjárveitingin til hennar sje miðuð við tillögur vegamálastjóra“. Um þetta vildi jeg fá ákveðið svar hjá hv frsm. (G. Sv.), svo að það sjáist svart á hvítu, hvað hv. nefnd ætlast fyrir um þessar framkvæmdir.