22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

113. mál, brúargerðir

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg sje, að í frv. eru einmitt teknar þær brýr, sem nú eru í fjárlögum. Þó þær nú verði teknar af fjárlögum, geri jeg ráð fyrir, að komandi stjórn muni láta þær ganga fyrir öðrum. Við þessa breyting verður 300 þús. kr. minni halli á fjárlögum en ella. En halli landssjóðs er hinn sami.

Jeg vil benda á, að það verður að beita meiri varkárni en hingað til hefir verið gert. Hallinn á fjárlögunum verður meiri nú en nokkru sinni áður. Enginn getur sagt, hversu langt komandi stjórn kann að fara í útgjöldunum, ef þingið gefur annað eins fordæmi og nú virðist vera efst á teningnum.