22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil að eins minnast örlítið á nokkrar brtt.

Sjálfur á jeg brtt. á þgskj. 913, um það að hækka styrkinn til leikfjelagsins upp í 2000 kr. á ári. Að vísu heyrir þetta ekki sjerstaklega undir mína deild, en jeg hefi hins vegar talað um það við forsætisráðherrann, og er hann þessu samþykkur. Engum dylst það, að leikfjelagið hefir unnið mikið starf í þessu landi, og viðfangsefni þess hafa mörg verið merkileg. Og aðallega hafa starfað við það áhugamenn, sem bæði hafa haft fullan vilja, og margir getu, til þess að sýna verulega list. En þeir hafa ekki gert það af fjárhagsástæðum, því ágóðinn hefir oftast verið rýr, og stundum enginn. En starf fjelagsins er áreiðanlega orðinn drjúgur þáttur í menningu þjóðarinnar.

Upphaf þessa máls er reyndar í háttv. Nd. Þar kom fram tillaga um það, að veita fjelaginu 10 þús. kr. til að byggja skúr til geymslu fyrir áhöld sín og tæki, þar sem það heldur nú ekki lengur fyrra húsnæði sínu. En þetta var felt. En til þess að bæta dálítið úr þessu er mín till. fram komin. Þá ætti fjelagið að geta fengið leigða geymslu, og því þar með bjargað við, að áhöld þess yrðu fyrir skemdum, og orðið til þess, að leikið yrði í vetur.

Jeg hefi átt tal um þetta við framkvæmdarstjóra fjelagsins, og hjelt hann að fjelagið gæti haldið áfram starfi sínu fyrir þennan styrk. En það væri illa farið, ef starf þess fjelli niður, en í staðinn kæmu skrípaleikir, sem dregið geta fje, en hefðu ekkert listagildi.

Jeg vona svo, að háttv. deild geti fallist á styrkveitinguna.

Þá er brtt. á þgskj. 942. Jeg geri að vísu ráð fyrir því, að forlög þessarar tillögu sjeu vís, þar sem öll fjárveitinganefnd er einhuga um að fella hana, og er það vel. Þarna er sem sagt um það að ræða að fella niður 1200 kr. til Bjarna Jónssonar frá Vogi til að þýða Faust.

Eins og allir vita, er Faust hið mesta snildarverk, en engum nema snillingum fært að þýða það á íslenska tungu, svo að bókmentalegt gildi hins ódauðlega verks rýrni ekki stórum í þýðingum. En um það mun mönnum koma saman, að Bjarni Jónsson sje snjallastur þýðari á þessu landi. Jeg er þessu má ske kunnugri en flestir aðrir. Jeg hefi heyrt hann lesa upp ýmsa kafla úr þýðingunni og eru þeir afbragð.

Loks kemur þá till. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um sendiherrann eða ríkisfulltrúann.

Ástæðurnar, sem háttv. þm (M. T.) færði fyrir þessari tillögu sinni, voru að mjer virtist, nokkuð óljósar. Aðallega virtist hann þó stefna að því, að landið væri of fátækt, staðan of virðuleg fyrir Íslendinga, enda vantaði okkur reynslu.

Að því er fyrstu ástæðuna snertir, hefir háttv. þm. (M. T.) hrakið hana sjálfur, þar sem hann ætlar ríkisfulltrúa sínum sömu laun og aðrir ætla sendiherranum. Það er þess vegna ekki fjárhagssparnaður að nafnabreytingunni.

En að því er hinar ástæðurnar snertir, þá er það að vísu satt, að hjer er ekki til nein sjerstök ,,diplomata“-stjett, sem æfingu hafi í þessum störfum En einhvern tíma verður hún að koma, og einhvern veginn verður hún að skapast — og hvar eða hve nær er tækifæri til þessa, ef ekki einmitt nú?

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði að utanríkisráðherrarnir dönsku hefðu ávalt verið ríkir menn. Jeg veit ekki neitt um hvað er satt í þessu, skal hvorki staðfesta það eða rengja það, en öllum mun ljóst að utanríkisráðherrann danski muni þurfa meira risnufje en sendiherra vor þarf.

Kostnaðarhliðin hefir annars óspart verið dregin fram einkum í einu blaði hjer og hefir verið bent á, að sumir sendiherrar hefðu hundruð þúsunda í eyslufje. Getur vel verið, — en hvað kemur það þessu við? Þurfum við að vera að apa eyðslusemi stórþjóðanna? Mjer er kunnugt, að utanríkisráðherra Dana hefir að eins 20 þús. kr. í risnufje en af því ætti að mega ráða það, að íslenski sendiherrann muni ekki þurfa risnufje svo skifti hundruðum þúsunda.

Þá hefir það verið undirstrikað mjög, ekki síst í einu blaði hjer, sem tekið hefir það á stefnuskrá sína að berjast á móti sendiherranum — að þeir væru úreltir og að leggjast niður, að þeir væru tildur og barnaglingur o. fl. slíkt. En eftir því, sem jeg veit best, er langt frá því, að svo sje.

Það er þvert á móti svo, að aðrar þjóðir vanda nú meira valið á sendiherrum sínum en nokkru sinni áður. Jeg vil þar t. d. nefna það, að Bretar hafa nú sent Grey. fyrverandi utanríkisráðherra sinn til Bandaríkjanna. Sömuleiðis veit jeg ekki betur en að Þjóðverjar sjeu nú sem óðast að reyna að koma sendimönnum sínum, sem víðast.

Enn fremur vil jeg benda á og undirstrika eitt atriði í þessu máli. Þegar sambandsmálið var hjer til meðferðar síðast, fundust mönnum sjerstaklega gallaðar tvær greinar, 6. og 7. gr. Óánægjan út af annari greininni var af því sprottin, að við tækjum ekki utanríkismálin í okkar hendur undir eins, heldur færi sambandsþjóðin með þau. Og þetta hefir ávalt verið þrá okkar, að hafa einnig þessi mál með höndum. Jeg hefði því búist við því, að það væri ekki ætlunin að sleppa alveg hendinni af þessum málum, þó Danir fari með þau í bili. En það gerum við, að meira eða minna leyti með því að hafa engan fulltrúa í Danmörku eða sendiherra.

Þá hefir það verið sagt, að litlu máli skifti hvaða stöðu maðurinn hefði, sem sendur yrði. En þetta er misskilningur. Því ef við förum á annað borð að senda mann og kosta miklu til, virðist rjettara að hafa hafa hann í stöðu sem gefur fylsta aðgang að þeim mönnum, sem mestu ráða um það hvernig teningurinn snýst. Hjer heima ættu menn fyrir löngu að vera orðnir sannfærðir um, að vjer sækjum ekki gull í greipar annara þjóða, ef vjer náum ekki tali af öðrum en undirtyllum þeirra.

Ef sendimaðurinn yrði nú kallaður ríkisfulltrúi, þá er mjer spurn: Hverskonar maður er þetta? Eða hvers stands maður það? Er hann diplomat, eða ekki? Og hvar stendur hann í tröppunni Því þetta nafn markar nú enga sjerstaka afstöðu. En ef nafnið sendiherra er notað, er fyrirfram víst um, hvað í stöðunni felst.

Jeg átti nýlega tal um þetta við einn mikinn Íslandsvin og hann fagnaði því hjartanlega, að við hefðum rjett til að senda sendiherra til Danmerkur. Með því sagði hann að við gætum „dokumenterað“ sjálfstæði okkar gagnvart heiminum. Benti hann síðan á samband Svía og Norðmanna, en það var þannig, að Norðmenn höfðu ekki ,,jus legationis“, eða sendiherrarjett. Með því að senda sendiherrann er því slegið föstu frammi fyrir heiminum, að samband Íslands og Danmerkur er alt öðruvísi en sambandið var á milli Svía og Norðmanna.

Eitt blaðið hjer hefir hótað því, að það ætli að birta nöfn allra þeirra, sem máli þessu fylgja.

Jeg vona nú, að mitt nafn birtist, og jeg vona, að jeg verði talinn einn af forgöngumönnunum fyrir þessu máli. Mjer þætti það stór heiður. Og ef þjóðin væri spurð ráða í þessu efni, efast jeg ekki um, hvernig svarið yrði. Hún mundi heimta sendiherra. Hún mundi sjá þörfina á því, að við undirbyggjum okkur undir það, að taka utanríkismálin í okkar hendur, og hún mundi sjá, að reynsluna og þekkinguna til þess fengjum við með því, að senda sendiherra til Danmerkur

Hjer er í rauninni verið að greiða atkvæði um stórvægilegt „princip“-mál í sjálfstæðismálum þjóðar vorrar.