22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

113. mál, brúargerðir

Sigurjón Friðjónsson:

Mjer hefir skilist, að aðalhugsunin, sem lægi bak við þetta frv., væri sú, að brúargerðirnar gætu gengið eftir föstum reglum, að altaf væri til fastur flokkur verkamanna, er vanir væru starfinu og ynnu bæði vetur og sumar. Sparnaðurinn við þetta fyrirkomulag væri í því fólginn, að ekki þyrfti eins marga menn til vinnu, og aldrei vantaði fje til nauðsynlegra brúagerða.

Mjer virðist hitt aukaatriði, hvort tekin eru upp í fjárlögin nöfn hinna einstöku brúa. Hið eina, sem sýnist athugavert við að sleppa því, er ef þingið þá um leið sleppir úr hendi sjer rjettinum til að ákveða, hvaða brýr skuli fyrst gera. Sje jeg eigi, hvað er á móti því, að brúanöfnin standi í fjárlögunum eins eftir sem áður, en jeg tel það formatriði, sem eigi geti komið í bág við, að frv. nái fram að ganga.