22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

113. mál, brúargerðir

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg verð að halda fram, að skilningur minn á frv. sje rjettur, að ekki verði tekið upp í fjárlögin annað en vextir og afborganir af láni því, sem tekið verður til brúagerða. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að lán verði tekið, og sagt, að vexti og afborgun af því skuli telja með öðrum gjöldum ríkissjóðs. Mjer skilst, að ef þetta frv. verður samþykt, verði alt sett á vald stjórnarinnar, hversu margar, hvar og hverjar brýr verða bygðar. Það er helst útlit fyrir, að tilhneigingin hjá háttv. þingi sje að taka ekki einungis þetta út af fjárlögunum, heldur og allar opinberar byggingar o. fl. Jeg sje, að það liggja fyrir uppástungur um það. Slíkt er að vísu ekki tiltökumál þegar stjórn sú, sem situr að völdum, fer varlega, en í höndum stjórnar, er hefir tilhneigingu til framkvæmda án tillits til kostnaðarins, getur slíkt verið athugavert.