22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

113. mál, brúargerðir

Magnús Torfason:

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) átaldi, að mál þetta hefði ekki verið rætt fyr en nú vil jeg benda honum á, að hjer í háttv. deild eru menn ekki vanir að vera svo málugir við 1. umr.

Með þessu frv. er verið að ganga inn á nýjar brautir; framvegis er ætlast til, að bygt verði fyrir lán. Er jeg ekki á móti því í sjálfu sjer, en mjer finst ekki ástæða til að taka lán til hluta, sem eigi eru sjerstaklega arðvænlegir, og binda þannig framkvæmdir landsins, ef að því ræki, að við þyrftum lán til einhvers arðvænlegs stórfyrirtækis. Brýr geta ekki talist beint arðvænlegar, og finst mjer ástæðulaust að taka lán til þeirra. Jeg veit heldur ekki til að neitt verulegt lán hafi verið tekið til símalagninga eða vitagerða. Það kom fram í umræðunum um vitana síðast, að tekjurnar og kostnaðurinn stæðist bar nokkurn veginn á. Og nú, þegar á að fjölga vitunum, hefir komið fram tillaga um að hækka vitagjaldið. Er mjer heldur eigi kunnugt um, að neitt verulegt lán hafi verið tekið til þeirra. En þegar verið er að leggja nauðungarskatta á ýmsar atvinnugreinar, sje jeg ekki ástæðu til að flana út í stórar lántökur til brúagerða. Yfirleitt finst mjer, að stórar lántökur geti beðið þangað til við höfum verulega þörf á þeim.

Jeg veit heldur ekki til þess, að vegamálastjóri hafi kynt sjer nokkuð sjerstaklega vegakerfi vestanlands, enda er tæpast við því að búast, því hann er maður ungur að árum og embættisaldri.

Mjer virðist því, að öllu athuguðu, lítill skaði skeður, þó þetta mál fengi að hvíla sig til næsta þings, að minsta kosti. Því það er hvorttveggja, að þetta er stórmál, og að hjer er um að ræða stefnubreytingu, og hana þann veg vaxna, að mjer virðist varhugavert að flana að henni undirbúnings- og athugunarlítið og ekki síður varhugavert — eins og hjer er um að ræða — að binda lánstraust ríkisins eftir geðþótta stjórnarinnar, t. d. fyrir kosningar.