22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Það sýnist má ske óþarfi að tala meira um mál þetta en orðið er.

Brtt., sem hjer liggur fyrir, fer fram á það eitt, að breyta nafni sendimannsins. Og í rauninni er það undarlegt kapp, sem menn leggja á þessa nafnbreytingu, fyrst menn ætla þá ekki líka að lækka launin. Annars er það í mínum augum aðalgallinn á brtt., að með henni er gert ráð fyrir að stofna stöðu, sem ekki á sjer neinn vissan stað í milliríkjaviðskiftum, hvorki sem „diplomatiskt“ nje verslunarembætti. Því í raun og veru er þetta alveg óþekt starf — eða heiti á starfi — nú orðið. Einhver mundi þá má ske segja, að það gerði lítið til, þó að þetta væri svona. Það er líka satt, að það má senda fulltrúa til að vinna eitthvert ákveðið verk. eða fara með ákveðið erindi, án þess að þetta verði að meini. En þegar maðurinn á að vera milliliður milli stjórna og eiga sæti á einhverjum stað árið um kring, þá þurfa menn að vita, hvar staða hans á heima í þeirri stjett, sem hann skipar.

Jeg álít því rjettast í þessu tilfelli að senda mann, sem hafi „diplomatisk“ rjettindi. Jeg held, að öllum hafi þótt vænt um það, þegar Danir sendu hingað ,,ministerresident“, sem er sendiherra, en með lægri launum heldur en t. d. ambassadör eða gesandt. Nú væri það auðvitað óþarfatildur af okkur að fara að senda gesandt eða ambassadör, og við mundum því senda mann með sama titli og Danir sendu hingað. Að minsta kosti mundi mjer ekki detta annað í hug, ef jeg hefði eitthvað með málið að gera.

Ef það er hins vegar svo að mönnum þyki þetta alt í raun og veru „of fínt“ fyrir okkur, þá væri miklu betra að hafa bara „generalkonsul“; það yrði þó ákveðin staða, með ákveðnu verksviði og launum, þar sem ríkisfulltrúi, eða rigskommissær, mun tæplega þekkjast nú á dögum í þessum skilningi.

Þó að sennilega megi segja, að það sje ekki bráðnauðsynlegt, til að sýna þjóðrjettarsamband okkar við Dani, að hafa þar sendiherra, þá verður það ávalt gott og að gagni að hafa þar virðulegt embætti, sem verið geti miðdepill íslensks þjóðernis í Kaupmannahöfn og landar geti treyst á og snúið sjer til ytra.

Jeg skal enn fremur geta þess, að þetta, að nafnið var sett svona, hygg jeg að hafi heldur ýtt undir það, að Danir sendu hingað sendiherra.

En ef það kæmi á daginn, að oss yrði þetta ofviða, þá gætum vjer altaf hætt við það; það er altítt, að sendiherrar eru hafðir að eins um tíma í tilteknu landi. Annars geri jeg ekki ráð fyrir öðru en að sjálfsagt verði talið, að vjer höfum sendiherra framvegis.