28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Jeg verð að láta þess getið, að jeg býst við, að stjórnin geti ekki sannað það með gildum rökum, hvort landsverslunin hefir grætt eða tapað, á ýmsum tímum, eða að minsta kosti getur hún ekki sannað, að hún hafi altaf grætt. Að minsta kosti kom í ljós í fyrra atriði, sem ber vott um, að verslunin hafi tapað við og við. Það upplýstist í fyrra haust, að landsverslunin hefði grætt um 800 þús. kr. Þegar aðgætt var, hvaðan þessi gróði stafaði, þá var ekki hægt að fá neina skýringu á því. En menn vissu að þessi gróði hlaut að vera eða gat verið af tveim vörutegundum, sem komu í einni sendingu, kolunum — gjafakolunum svo nefndu — og saltinu. En ef svo er, að á þessum tveim vörutegundum græddist þetta — sem og hlaut að vera miðað við verðið — þá er auðsætt, að ekki hefir gróði orðið af öðrum vörutegundum, heldur jafnvel tapast á sumum. Jeg skal ekki leiða getur að af hverju tapið muni stafa. Auðvitað má benda á „skakkaföllin“. En menn hafa furðað sig á, að landsverslunin skuli ekki græða feikilega mikið, eftir vöruverðinu að dæma, sem sannanlegt er að farið hefir fram úr verði, sem kaupmenn gátu veitt á ýmsum tímum. Jeg tel því hyggilegast af hæstv. stjórn að fullyrða ekki ofmikið. Það sjest betur, þegar reikningarnir verða gerðir upp, hvort heldur verður þrotabú, eða arfur fellur í skaut ríkissjóðs.

Jeg tek undir það með háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að það gleður mig, að hæstv. atvinnumálaráðh. skuli vilja styðja frjálsa verslun. Og jeg vona, að hann tali þetta í þeirri veru, að hann ætlist til, að þessi stefna eigi að ríkja innan þess flokks, sem hann er höfðingi fyrir. (Atvinnumálaráðh.: Jeg tala þetta sjerstaklega sem þm.). Hæstv. ráðherra á ekki sæti í þessari deild sem þingmaður, og er því ástæða til að halda, að hann tali sem ráðherra og í anda þess flokks, sem styður hann. Jeg verð að skoða þessa yfirlýsingu sem stefnubreytingu af hálfu flokksins. Er vel, að hæstv. ráðh. skuli vera kominn að þeirri niðurstöðu, að verslunin eigi að útkljást á frjálsum grundvelli, sem mest án íhlutunar af hálfu ríkisins.

Hæstv. atvinnumálaráðh. gat nú ekki gefið það svar við fyrirspurn minni, sem orðið gæti lýsandi atriði í „grafskriftinni“. Hann játaði að eins afsakað gat hann ekki, svo að það er status quo frá því er jeg talaði. — Hæstv. forsætisráðh. vildi helst fá að heyra alla grafskriftina. En jeg býst við, að hæstv. ráðh. kannist við, að það er ekki síður að bera grafskrift undir hinn framliðna. Hann verður því að sætta sig við, þó hún verði, ef til vill, dálítið öðruvísi en hann vildi kjósa, nema hann ætli sjer þá að „ganga aftur“, til þess að leiðrjetta hana.