22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi, ásamt öðrum hv. þm., sem nú er ekki viðstaddur, leyft mjer að flytja brtt. á þgskj. 940, um dálítinn styrk handa byggingarfjelagi Reykjavíkur, sem jeg vil gjarnan fara nokkrum orðum um.

Mál þetta lá fyrir Nd., og fjekk þar að mínu áliti allgóðar undirtektir, eftir því því sem ástæður og atvik voru fyrir hendi. Þar var sem sje farið fram á miklu hærri styrk en nú er gert, og er jeg alveg viss um það að tillagan myndi hafa náð þar fram að ganga ef hún hefði verið borin fram í þeirri mynd, sem nú er hún í.

Jeg þykist mega fullyrða það, að af öllum örðugleikum, sem stafa af heimsstyrjöldinni sje húsnæðisskorturinn einna tilfinnanlegastur, sem eðlilegt er, með því að telja má, að algerð kyrstaða hafi verið hjer í húsagerð í nærfelt 5 ár. Það er ekki of mikið sagt, að hjer sjeu hrein vandræði fyrir dyrum að þessu leyti. Um mál þetta hefir allmikið verið rætt og ritað. Út hafa verið gefin ávörp og áskoranir um að leggja nú þau ráð, að bót yrði ráðin á þessum vandræðum. Mjer liggur við að segja, að þetta fyrirkomulag, sem nú hefir verið tekið upp, sje líklega einasta ráðið, eins og ástatt er. Jeg get þess vegna með fullri einurð borið fram þessa tillögu, og lít svo á, að það geti tæplega talist vansalaust þinginu að fella þennan litla styrk. Mönnum kemur víst saman um það, að ekki geti ömurlegra ástand en það að vita ekki, hvar menn eigi höfði að að halla, eða eiga ekkert skýli; en það er víst, að það er mörg fjölskyldan, sem svo er ástatt um, og enn fleiri eru þær fjölskyldur, sem hafa svo ónóg og ill húsakynni, að bæði lífi og heilsu er hætta búin, eins og t. d. eru kjallaraholur þær, sem menn verða að gera sjer að góðu þar sem er bæði kalt og fúlt og skortur er á því lífslofti, sem er skilyrði fyrir lífi manna Þegar svo er ástatt, er það skylda hins opinbera að gera eitthvað í áttina til þess að ráða bót á ástandinu; það ætti að vera bæjarfjelaginu hvatning til að framkvæma eitthvað í þá átt, að bæta úr mestu vandræðunum. ef þingið gengi á undan í því efni.

Það var ekki hægt að fá eindregið samkomulag í nefndinni um það, að hún bæri fram þetta mál. En jeg verð að álíta, að svo hafi staðið, að varla sje um meiri eða minni hluta að ræða. En af því að hv. frsm. (E. P.) vjek að þessari till. sem þingmaður, þótt ekki gerði hann það beinlínis sem nefndarmaður, þá skal jeg stuttlega drepa á ástæður þær, sem hann færði á móti till.

Aðalástæða hans var sú, að ef gengið væri inn á þessa braut, þá væri ilt að sjá, hvar hún tæki enda. Það virtist vaka fyrir hinum hv. þm., að þetta myndi verða til þess að baka landinu stór útgjöld, t. d. þannig, að aðrir kaupstaðir landsins kæmu á eftir og bæðu um styrk í sama skyni. Jeg hygg nú, að ekki þurfi að óttast að þetta komi fyrir, nema meðan verið er að bæta úr þessu ástandi, sem stafar af óviðráðanlegum orsökum. En mjer er næst að halda, að slíkur fjelagsskapur sem þessi muni varla verða stofnaður mjög víða utan Rvíkur; frsm.(E. P.) þarf því ekki að vera mjög órólegur. Enda þótt það kæmi fyrir, teldi jeg það langt frá því varhugavert; tel það fremur æskilegt, því að jeg álít það ómetanlegt gagn, ef hægt væri að bæta svo, mjög bráðlega, húsakynni manna, að þeim stafi ekki beinn háski af.

Þá gerði hv. 1. þm. Rang. (E. P.) talsvert úr því, að þetta gengi í þá átt, að draga fólkið úr sveitunum í kaupstaðina. Þessi orð hafa oft heyrst hjer í þingsalnum, og mjer finst þau heldur vandræðaleg. En jeg geri ekki ráð fyrir, að það sje tilætlunin, eða æskilegt, að hagur fjölda manna í bæjum og kauptúnum sje til lengdar svo bágborinn, að þeir verði neyddir til að leita á náðir stórbænda og selja þeim sjálfdæmi hvað snertir kaup og allan annan viðurgerning. Undanfarandi reynsla hefir sýnt, að kjör vinnulýðs standa ekki ætíð í rjettu hlutfalli við það gagn, sem hann hefir unnið húsbændunum. Jeg er ekki sannfærður um, að bændum þyki svo eftirsóknarvert að taka margar fjölskyldur, með mörgum ungum börnum, sem illa stendur á fyrir vegna slæmrar aðbúðar. Nei, það er hvorki rjett nje viðeigandi að bera þetta fram sem aðalástæðu. En hitt er eðlilegt og sjálfsagt, að löggjafarvaldið reyni að stuðla að því eftir megni, að sveitaheimilin sjeu þannig úr garði gerð, að fólkið sækist eftir að ráða sig þar og ílengjast þar. Það er það rjetta, en ekki það, að þröngva svo kostum manna, að þeir neyðist til þess. Jeg sje raunar ekki betur en að stefna Alþingis hafi verið sú, að stuðla að því, að fólkið ílengdist í sveitunum. Í hverjum fjárlögum hafa verið einhverjar upphæðir, sem miðað hafa í þá átt. Enn fremur leggur landið fram fje til byggingafróðs manns, til að leiðbeina mönnum í sveitum við húsagerð o. fl.

Jeg vildi, að stefnan yrði sú, að gert væri mikið meira fyrir sveitirnar en gert hefir verið hingað til, svo að fólkið flyttist þangað af frjálsum vilja.

Að því ætti að stefna, en gæta þess jafnframt, að enn sem stendur er enginn vegur til þess, að það geti tekist, nema að bæta svo húsakynnin, að þau verði sæmilegir mannabústaðir.

Fjelag eitt hefir nú ráðist í það, af veikum mætti, að bæta úr bráðustu húsnæðisþörf efnalítilla manna hjer í bænum. Byggingin kostar líklega um 100–120 þús. kr.; liggja hjer fyrir uppdrættir að húsinu og lög fjelagsins. Hjer er ekki gert ráð fyrir húsum, sem braska á með, eða ganga eiga kaupum og sölum, heldur eru hjer efnalitlir menn að bindast samtökum um að byggja skýli yfir sig og sína, þar sem þeir geta hafst við nokkurn veginn óáreittir og trygt svo framtíð sína og sinna. Þetta er spor í framfaraáttina, og Alþingi illa sæmandi að bregðast ekki vel við þessu. Jeg lít svo á, að Ed. hafi haft sóma af sínum gerðum, bæði hvað snertir fjárlögin og önnur mál, og tel jeg valda nokkru um, hvort það álit helst, hvernig hv. deild snýst í þessu máli.

Jeg var satt að segja óánægður yfir því, að styrkurinn til Flugfjelagsins var feldur, því að jeg álít slæmt, að hv. deild geri nokkuð það, sem orðið getur til þess, að sá afturhaldsstimpill, sem svo mörgum er ant um að klína á hana, festist við hana. Jeg vil, að hv. deild varist að gefa tilefni til þess, að slík ummæli hafi við rök að styðjast.

Það þýðir svo ekki að fara meira út í þetta mál; vænti þess, að hv. þm. Vestm. (K. E.) leggi orð í belg, ef honum finst eitthvað vanta, máli mínu til stuðnings.

Fer jeg svo ekki meira út í till. að sinni. og mun reyna að komast hjá að tala um hana frekar, en farið getur svo, að jeg verði neyddur til þess og mun jeg þá aftur biðja mjer hljóðs.