09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

121. mál, löggilding verslunarstaðar á Mýramel

Flm. (Matthías Ólafsson):

Fyrst nú fyrir nokkrum dögum barst mjer ósk úr Mýrahreppi um að fá löggildingu verslunarstaðar á Mýramel, og það er samkvæmt þeirri ósk, að jeg flyt þetta frv. Jeg get sagt stuttlega, hvernig á þessu stendur og hvernig þarna hagar til. Í þessum hreppi er enginn löggiltur verslunarstaður, en það er í öllum nágrannahreppum. Nú hafa menn stofnað þarna kaupfjelag, og verða þess vegna að fá einhvern löggiltan verslunarstað. Þeir hafa valið Mýramel, og er það ekki illa valið. Dýrafjörðurinn er allur ein höfn, svo ekki er það til fyrirstöðu. Þeir ætla að byggja þarna hús og bryggju, og eru engir annmarkar á, að það sje hægt. Að vísu er ekki hægt að hafa bryggjuna stóra vegna íshættu. Það hefir komið fyrir, að bryggjan á Þingeyri hefir skemst af þeirri ástæðu, og er hún þó betur sett.

Viðvíkjandi þessum verslunarstöðum er jeg þeirrar skoðunar, að það sje að eins óþarfa tímaeyðsla að láta þingið gefa út lög um þá í hvert skifti. Það væri umbrotaminna, að slíkt leyfi væri veitt eitt skifti fyrir öll og stjórnarráðið löggilti staðina, þegar þess væri óskað. Það er hvort sem er venja að veita altaf slíkt leyfi.

Jeg vona, að þetta frv. gangi hljóðalaust gegnum þingið. Jeg sje ekkert, sem mæli á móti málinu, en það er til þæginda fyrir þá, sem að því eiga að búa. Jeg sje ekki ástæðu til, að málið gangi til nefndar, en vona, að það verði samþykt til 2. umr.