22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Karl Einarsson:

Jeg á brtt 939. Það var ákveðið með auglýsingu 19 maí '16, að halda skyldi uppi sóttvörnum, til þess að mislingar bærust ekki til Vestmannaeyja. Þetta var gert af stjórninni eftir tillögum sveitarstjórnar Vestmannaeyja. Sóttvörnum þessum var haldið uppi til 8. maí ´17, og stóðu þær því næstum 8 mánuði. Kostnaðurinn við þær var tæpar 7000 kr. Stjórninni fanst kostnaðurinn verða nokkuð mikill, og hefir ekki verið borgað úr landssjóði nema tæpar 2700 kr.; hitt hefir sýslan borgað til bráðabirgða, og hefir mjer verið falið að fá það endurgoldið. Til þessa hefir sýslan fengið 4000 kr. lán; hitt hefir verið goldið úr sýslusjóði. Stjórnin taldi sjer ekki fært að greiða allan kostnaðinn, og auglýsti því, að þeir, sem vildu flytjast inn í plássið og ekkert vottorð hefðu, yrðu einangraðir á eigin kostnað. Þetta var gert fyrst í stað, en þegar leið að hausti, var það ómögulegt; fólkið var fátækt og gat ekki borgað sjálft gjaldið, sem nam 100 kr. pro. pers. Hættan var minni, og þau húsin, sem veikin hafði verið í, voru einangruð, og átti það ekki að greiðast af húsbændunum sjálfum. Þetta hefir ekki verið athugað nógu vel. Jeg átti tal við stjórnina í gær, og sagði hæstv. forsætisráðherra, að þingið tæki ákvörðun um þetta, og sagði jeg mætti lýsa yfir því, að hann hefði ekkert við það að athuga. Ef þingið sjer sjer ekki fært að endurgjalda þetta úr landssjóði, verður að fara að rekast í að innheimta kostnaðinn hjá einstökum mönnum, sem að mestu leyti eru fátæklingar, og verður það ekki greiður aðgangur. Enda ekki ástæða til þess, þar sem það liggur í augum uppi að landssjóður á að borga þetta.

Þar sem enginn hefir haft neitt fram að færa móti till., vona jeg, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. hana.

Jeg var meðflutningsmaður að till. um Reykjavík til að byggja — í byrjun, og ef til vill áfram. — En jeg geng þess ekki dulinn, að það leiðir til þess, að aðrir kaupstaðir koma á eftir með líkar fjárbænir. Það margborgar sig óbeinlínis, ef ekki beinlínis, fyrir landsstjórnina, þó það um leið bindi henni bagga, að veita fje til slíkra fyrirtækja. Því þetta fólk hefir ónógan aðbúnað og heilsuspillandi húsakynni. Jeg geri ráð fyrir, að fjelagið bæti eigi að eins úr því með því að byggja sjálft, heldur muni það einnig hafa í hyggju að koma

betra skipulagi á bústaði manna og leiðbeina mönnum í þeim efnum.

Hjer er brtt. frá hv. þm. Ísaf. (M T.) við 10. gr. fjárlaganna., sem búið er að tala um. Mig undrar mjög, að sú till. skuli koma frá þeim hv. þm. Hann tók fram rjettilega í fyrra, er sambandslögin voru á ferðinni, að það væri stór galli á þeim lögum, að við færum ekki að fullu með utanríkismál okkar, og Danir hefðu sama rjett á þessu landi eins og við. Jeg ætla ekki að fara út í sambandlögin, því þess er engin þörf, að eins taka það fram, að mig furðar — og veit jeg ekki með vissu hver meiningin er — að brtt. þessi skuli vera komin frá hv. þm. Ísaf. (M. T.), eftir þeirri skoðun, sem þessi hv. þm. hefir áður látið í ljós, að við ættum rjett á að fara með utanríkismál okkar, og eftir þeim áhuga, sem hann hefir sýnt fyrir málinu

Þetta er fyrsta ráðið til að sýna og sanna, að við eigum rjettinn, en ekki aðrir. Við ættum ekki að eins að hafa sendiherra í Danmörku, heldur og með öðrum þjóðum. Því ekki að eins dönsk ríkisvöld, heldur og ríkisvöld annara ríkja í Kaupmannahöfn, ættu að hafa samneyti og viðskifti við þennan mann. Hann verður að geta heimtað og gefið „audiens“, og þarf því að hafa þessa tign. — Jeg er hissa, að hv. þm. (M. T.) skuli kalla það barnaglingur og fordild, og hann skuli heldur vilja senda mann, sem hvorki hefir vald nje umboð, til að hafa á hendi framkvæmdir eftir eigin vild. Sá maður myndi ekki þurfa nema smáskrifstofu til að tala við menn í, sem til hans myndu koma. Og þessum manni ætti að veita 28000 kr. Þessu hefir þegar verið svarað af hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) og hæstv. forsætisráðh. (J. M.), svo jeg mun ekki talar frekar um það. Býst við, að hv. deild samþ. ekki þetta barnaglingur, sem hjer liggur fyrir.