22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum til að svara þeirri löngu ræðu, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir nú haldið.

Hann var að minnast á það í sambandi við tildrið, að menn hefðu viljað krýna konunginn hjer í dómkirkjunni. Þetta hefi jeg ekki heyrt nefnt fyr, og þarf því ekki að svara því.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) var að tala um það, að Norðmenn og Svíar hefðu viðurkent fullveldi okkar. Það er rjett, að þessar þjóðir eru okkur mjög vinveittar, en engir hafa þó viðurkent fullveldi okkar betur en Danir, sem bæði hafa sent hingað sendiherra, og auk þess látið herskip heilsa fána okkar.

Norðmenn og Svíar hafa að vísu sent hingað generalkonsúla, en þeir tilheyra ekki diplomataröðinni, og vera þeirra hjer því engin sönnun fyrir fullveldi okkar.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) talaði um það, að aðstaða sendiherra okkar í Danmörku væri önnur en annara sendiherra. — Hann væri ,,tvíeinn“, eins og hann komst að orði. Jeg skildi ekki hvað hann meinti með þessu, en í sambandi við það mintist hann á, að Norðmenn hefðu ekki haft sendiherra í Svíþjóð á ,,unions“-tímunum. En ástæðan til þess er sú, að Norðmenn höfðu þá ekki sendiherrarjett (jus legationis). Þess vegna var það, að einn sænskur vinur okkar fagnaði yfir því, að við skyldum hafa þann rjett, sem frændur okkar Norðmenn þráðu svo mjög á þeim tímum, en gátu ekki fengið.

Einmitt það, að við höfum þennan rjett, en Noregur hafði hann ekki, sýnir, að aðstaða Íslands til Danmerkur er önnur og betri en aðstaða Noregs var til Svíþjóðar.

Konungur vor hefði að sjálfsögðu, er fjárlagafrumvarpið var borið upp fyrir honum í ríkisráði, ekkert við sendiherrann að athuga, og auðvitað gerði íslensk-danska nefndin ekki heldur athugasemd um hann, en þrátt fyrir það veit heimurinn ekki af þessum rjetti vorum fyr en vjer sendum sendiherra á einhvern þann stað, þar sem stórveldin hafa sendimenn sína, eins og t. d. til Danmerkur.

Nú er það og svo, að þótt við höfum þennan rjett, höfum við gefið Dönum umboð til að fara með hann, innan takmarka 7. gr. sambandslaganna. Nú er það vitanlegt, að Danir geta ekki farið með þetta umboð okkar gagnvart sjálfum sjer, og er því nauðsynlegt fyrir okkur að „documentera“ sem skýrast, að Danir sjeu að eins umboðsmenn okkar, en það gerum við best með því, að hafa þar mann, sem ber sendiherratign.

Hv. þm. Ísaf. (M T.) hefir ekki getað sagt, hvað leggjast eigi inn í ríkisfulltrúastöðuna. Ef því hv. Alþingi felst á hana, verður það að skýra, hvað í henni felst.

En eins og bæði hæstv. forsætisráðh. (J. M.) og jeg höfum tekið fram, er ekki rjett að gefa sendimanninum nafn, sem enginn veit hvað hann á að leggja inn í.

Starfsviði sendiherra er aftur á móti slegið föstu með alþjóðavenju.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) lagði áherslu á, að það hefði enga þýðingu fyrir starf mannsins, hvað staða hans væri kölluð. — En allir hljóta að sjá, að það hefir afarmikla þýðingu að hafa aðgang að þeim mönnum, er mestu ráða, og hefir staðan afarmikið að segja í því efni.

Dæmið um Franklín var úti á þekju. Við og við rísa upp svo miklir menn, að ekki er hægt að mæla þá á neinum venjulegum mælikvarða. Og Franklín var einn af þeim mönnum.

Það er eitt í þessu máli, sem jeg hefi ekki getað skilið og á erfitt með að skilja, og það er, hvernig á því stendur, að þingið skuli vera að hika við að skapa þessum sendimanni okkar sem greiðastan aðgang til að sjá málum okkar borgið, þegar það kostar engin aukin fjárútlát.

Mjer er ómögulegt að skilja greinar þær, er „Tíminn“ hefir flutt um þetta efni. Það hefir verið ein heitasta ósk þessarar þjóðar að geta farið sjálf með utanríkismál sín. Og þegar loks sá tími er kominn, að við erum búnir að fá opinn aðgang að því, er reynt að loka þessu hliði.

Við höfum gefið annari þjóð umboð til þess að fara með þessi mál, og verðum við því að hafa sem bestar gætur á því að vel sje farið með þetta umboð, auk þess, sem jeg tel sjálfsagt, að við tökum þau sem fyrst í okkar hendur.

Vona jeg svo, að brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.) verði feld. Að öðrum kosti er stigið stórt spor í áttina til þess, að leiða mál þessi sem mest hjá sjer.