21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

126. mál, löggiltar reglugerðir um eyðing refa o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg hafði hugsað mjer að koma með nokkrar brtt. við frv. þetta, en úr því að svo fór, að tími vinst ekki til þess, má eigi taka því fyrirvaralaust. Jeg sje ekki, að neitt sje í þessu frv., sem eigi er í lögum áður, frá 1890 og 93, og það er þó vissulega tilgangslítið að vera að endurprenta þau lög með breyttu orðalagi. Að vísu benti hv. frsm. (P. Þ.) á eitt atriði, er nýtt væri í frv., heimild sýslunefnda til að veita verðlaun fyrir refaeyðingu, en um það atriði hefði ekki þurft neitt lagafyrirmæli, því að sýslunefndirnar geta sjálfkrafa og án þessara fyrirmæla veitt verðlaun fyrir refavinslu, — jafnvel fyrir refaeldi, ef þeim sýnist.

Frv. er ekki svo mikilsvert, að eyðandi sje að því mörgum orðum, en mjer þótti rjett að gera grein fyrir atkvæði mínu, sem eðlilega fellur gegn frv.