21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

128. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Eins og jeg gat um við 1. umr. málsins. hefir samvinnunefnd samgöngumála dregið saman í eitt öll þau frv., sem fram hafa komið um þetta efni. En af því að nefndin hefir nú gert breytingar nokkrar á þessu frv. skal jeg geta þeirra lauslega.

Er þá fyrst á að minnast frv. á þgskj. 66, frá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Þar sem lagt er til, að lögð verði símalína frá Sauðárkróki að Víðimýri og Silfrastöðum og þaðan til Vatnsleysu.

Nefndin hefir gert þá breytingu, að takmarka þessa línu við Silfrastaði og hafa stöð á Stóru-Ökrum. Lína þessi er löng og liggur eftir endilöngum Skagafirði.

Nefndinni finst ekki þörf að loka línunni á Vatnsleysu eða hún liggi aftur norður, austan vatna, en hún vill leggja til, að stöð verði á Stóru-Ökrum; enda ekki sýnileg bein þörf á stöð milli Stóru-Akra og Vatnsleysu.

Við þetta hefir komið fram brtt. frá sama háttv. þm. (M. G.), um það að hafa stöð í Lýtingsstaðahreppi. Það er stór hreppur, og till. er flutt eftir eindreginni ósk hreppsbúa. Nefndin sjer því ekki neitt á móti því, að sú brtt. verði samþ., þar sem hjer er um tiltölulega lítinn kostnað að ræða, þar sem línan liggur rjett við sveitina.

Þá er brtt. á þgskj. 89, frá háttv. þm. Eyf. (E. Árna og St. St.), sem stendur í sambandi við þetta og verður að miðast við þessa breytingu.

Brtt. þessa vill nefndin taka til greina að því leyti, að tekin verði upp lína með stöð í Glæsibæjarhreppi og Skriðuhreppi, en það, sem nefndin fellir úr brtt. þessari, stendur í sambandi við það, sem hún fellir úr frv. um Skagafjarðarlínuna. Línan yfir Öxnadalsheiði til Akureyrar verður ekki heldur tekin með hjer, þar sem hún verður að eins sambandslína, sem liggur undir ákvörðun landssímastjórnarinnar og ekki er hægt að segja um, hve nær hún vill leggja hana. Ef til vill verður það ekki fyr en til mála kemur að leggja niður norðurlínuna til Akureyrar.

En línan um Glæsibæjarhrepp til Skriðuhrepps verður sjálfstæð 3. fl. lína. Hefir nefndin í samráði við landssímastjórann tekið upp þær stöðvar, án þess að taka fram, hvaðan línan verður tekin. Villlandssímastjórinn láta það óákveðið meðan hann hefir ekki rannsakað málið. Sama er að segja um línuna frá Akureyri inn Eyjafjörð.

Þá er frv. á þgskj. 201. Það hefir nefndin tekið upp óbreytt, og er það í samráði við landssímastjóra. En það er óákveðið, hvar línan skuli liggja, að eins tiltekið um stöðvarnar og sama er að segja um sambandslínuna yfir Vatnsskarð. Verður það því á valdi landssímastjórans.

Þá er frv. á þgskj. 67, frá hv. þm. N.-M. (J. J. og Þorst. J.), að lögð verði lína að Brekku í Fljótsdal, um Vallanes og Ás. Nefndin átti tal við landssímastjórann um þessa línu. Vill hann leggja línu þessa norðan megin fljótsins, að læknissetrinu Brekku. Stafar það af því, að hann bjóst við, að sæsíma yrði að leggja yfir Lagarfljót, og mundi þá læknissetrið Brekka komast úr sambandi ef hann bilaði, og það ef til vill alllengi, þar sem taka mundi nokkurn tíma að fá aðgerð á honum.

En nú hefir landssímastjórinn sent nefndinni brjef þessu viðvíkjandi, þar sem hann vill láta það algerlega óákveðið um stöðvarnar í Ási og Vallanesi. Brjef þetta stafar sjálfsagt af því, að hann hefir átt tal um línu þessa við kunnuga menn þar eystra. Hann segir svo í þessu brjefi:

„Hugsanlegt er, að ýms önnur atriði geti komið til mála, áður en sími þessi verður lagður, og álít jeg því rjettast að ákveða ekki fyrirfram, hvoru megin fljótsins stauraröðun eigi að standa.

Að sjálfsögðu mun málið verða skoðað frá öllum hliðum í samráði við hlutaðeigandi hjeruð, áður en fullnaðarákvörðun verður tekin. Þannig virðist mjer ekki ósennilegt, að rjettara verði að leggja símalínuna suður um land frá Djúpavogi inn Berufjörð gegnum Skriðdal til Egilsstaða, í stað þess að leggja síma með sjónum.

Gæti þá verið álitamál, hvort ekki mætti nota sömu stauraröðina á nokkru svæði fyrir Brekkusímann og aðalsímalínuna.“

Í sambandi við þetta brjef hefir nefndin komið fram með brtt á þgskj. 428, að orðin „um Ás með stöð í Vallanesi“ falli burtu. Og er þá að eins ákveðin línan að læknissetrinu Brekku.

Þá er viðaukatill. á þgskj. 211. frá hv. þm. Borgf. (P. O.), að tekin verði upp lína frá Svignaskarði að Stafholtsey. Hefir nefndin fallist á þá tillögu.

Enn fremur hefir nefndin fallist á frv. á þgskj. 249, frá hv. þm. V.-Ísf. (S. St.). Sú lína, sem þar er um að ræða, er áður ákveðin, en breytingin, sem frv. fer fram á, er sú, að fyrir „til Snæfjalla og þaðan að Höfða í Grunnavík til Staðar í Aðalvík, um Hesteyri, frá Hesteyri að Höfn á Hornströndum“ komi „Loftskeytasamband milli Ísafjarðar og Hesteyrar, þaðan landsímalína að Látrum í Aðalvík, enn fremur land- og sæsími frá Ísafirði um Ögur til Snæfjallastrandar, og þaðan að Ármúla og Grunnavík.

Þetta hefir landssímastjórinn lagt til, þar sem um mikinn fjársparnað er að ræða, og hefir nefndin því einnig gengið inn á það.

Þá hefir nefndin enn fremur tekið upp, eftir tilmælum háttv. þm. Barð. (H. K.), línuna frá Patrekshreppi til Saurbæjar og Breiðuvíkur, og sömuleiðis eftir ósk hv. þm. Snæf. (H. St.) línuna til Skógarness, hvorttveggja í samráði við landssímastjórann.

Þá held jeg, að jeg hafi drepið á allar breytingarnar og vona jeg, að engin þeirra mæti hjer mótspyrnu, þar sem þær eru allar gerðar í samráði við landssímastjórann. Vænti jeg svo að frv. fái greiðan framgang.