21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

128. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg vil taka það fram, eins og jeg gat um áður, að landssímastjórinn virtist vera sammála nefndinni um alt það, sem hún lagði til um þetta mál, og þótt hann hafi skrifað brjef það, sem jeg skírskotaði til, held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að hann hafi ekki breytt skoðun sinni, en hafi þótt rjettara að láta þetta óákveðið að svo stöddu, þar sem símaleiðir þarna eru ekki nákvæmlega rannsakaðar. Tel jeg því víst, að það verði ofan á að lokum, að stöðvar verði ákveðnar annaðhvort eins eða sem næst því, sem nefndin lagði til, enda mun það verða haganlegast fyrir not hlutaðeigenda. Hv. þm. Dala. (B. J.) mun því ekki þurfa neitt að óttast í þessu efni.

Aftur á móti er ekki hægt að segja, hve nær þessi lína yrði lögð, enda er því svo farið, að þótt tekið sje upp í lög, að þarna eða hjerna skuli leggja síma, þá getur því altaf seinkað eitthvað, eftir því hverjar ástæður eru fyrir hendi. Hjer er því ekkert ákveðið um það og getur ekki verið. En hitt er víst, að þetta verður framkvæmt, þrátt fyrir það, þótt það sje látið vera óákveðið með stöðvarnar.