27.08.1919
Efri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

128. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Frsm. (Halldór Steinsson):

Frá því að ritsímalögin voru samþykt, árið 1912, hafa talsverðar breytingar verið gerðar á þeim, sjerstaklega árið 1917, og stafa að sjálfsögðu af því, að menn hafa altaf sjeð betur og betur, hversu ómissandi síminn er hinum ýmsu hjeruðum, eftir því sem notkun hans hefir aukist.

Flestar breytingarnar hafa gengið í þá átt að fjölga símalínum, og svo er um þá breytingu, er frv. þetta hefir inni að halda. Er ætlast til, að þær símalínur, sem þar eru nefndar, verði lagðar í framtíðinni, svo fljótt sem efni ríkissjóðs leyfa.

Frv. þetta hefir verið til athugunar í samgöngumálanefndum Ed. og Nd. og verið þar samþykt í einu hljóði.

Aftur á móti hafa komið fram hjer í deildinni 2 brtt. við frv., en þær hafa ekki verið athugaðar í nefndinni, og veit jeg því ekki, hversu hún tekur í þær Samgöngumálanefndin hefir haft þá reglu, að taka enga símalínu upp í frv., áður en hún hefir leitað upplýsinga og álits landssímastjórans. Jeg hefi átt tal við hann um brtt. þm. Ísaf. (M. T.); sagði hann, að engar byggingar væru enn við Höfn við Horn, svo vafasamt væri hvort símalína þangað gæti borið sig, en var þó ekki mótfallinn, að hún væri tekin upp í frv.

Um brtt. 1. þm. Rang. (E. P.) hefi jeg ekki átt kost á að tala við landssímastjóra.