01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Allsherjarnefnd hefir athugað þetta frv. og fallist á það, með þeim breytingum sem nál. ber með sjer, og eru þær hvorki miklar nje verulegar.

Það, sem nýtt er í frv. þessu, er þetta:

Í fyrsta lagi, að leggja megi útsvar á þilbáta, þótt ekki stundi sjó nema í 4 vikur. Þetta mun nú hafa verið orðið svo í praxis, og sjer nefndin ekkert því til fyrirstöðu, að þetta sje tekið upp í lögin.

Í öðru lagi eru tekin inn í frv. ákvæði laga 2. nóv. 1914, um leiguliðaafnot af jörðum, og það bætt inn í slægjuafnotnotum, sem nánast er skýring, þótt menn hafi greint á um það, hvað langt lögin næðu í þessu efni. Skýringin er rjett og sanngjörn að öllu leyti. Maður á jörð í öðrum hreppi og notar hana að miklu leyti sjálfur, en ábúandinn er lítið annað en húsmaður. Þegar svo er ástatt, er ekki hægt að leggja fult útsvar á ábúandann, en sanngjarnt að leggja á þann, sem hefir aðalafnotin. En eins og nál. getur um, þá þykir nefndinni of langt farið í því að leggja útsvar á mann í öðrum hreppi, þó að hann hafi fengið slægjur ljeðar til þess að bjarga skepnum sínum og borgað fult verð fyrir. Slægjutollur er nú orðinn svo hár og svo mikill tekjuauki fyrir ábúandann að þess vegna er rjettara að leggja á hann hærra útsvar, og jafnvel meira en lagt er á mann, sem með miklum kostnaði nytjar ábúðarjörð sína, og fær þannig dýra framleiðslu, en takmarkaðar afurðir.

Þetta eru aðalbreytingar frv., og hefir nefndin tekið þær til greina, hina fyrri alveg, hina síðari með þeirri skýringu sem nú var gefin.

Þriðja breytingin, sem felst í frv., er sú, að tekin eru upp í frv. lög nr. 48. 3. nóv. 1915, og lög 2. nóv. 1914, og telur nefndin það rjett, en of skamt farið, með því að ein grein er eftir skilin. Nefndin vill að allar greinar laganna sjeu teknar í frv., og hefir gert till. um það í brtt. sínum. með því að inn í þær eru sett öll þessi sömu ákvæði.

Eins er þó ógetið enn, sem ekki er heldur nefnt í nál., með því að það var prentað, er nefndin tók það atriði til íhugunar og samþyktar. Það eru orðin ,,við sama fjörð eða flóa“ í síðustu setningu í brtt. 2. á þgskj. 578. Nefndin leit svo á, enda mun svo hafa verið í praxis, að ósanngjarnt væri að leggja útsvar á menn í öðrum hreppi við sama fjörð eða flóa, sem útræðið er við, ef lagt er útsvar á þá í sveitarfjelagi þeirra. Hafði jeg hjer sjerstaklega í huga Ísafjörð, þar sem jeg er kunnugur. Það væri mjög ósanngjarnt og erfitt að elta menn þar úr hverri verstöð í aðra. til þess að leggja á þá útsvar.

Um 1. brtt. nefndarinnar skal jeg geta þess, að deildar voru meiningar í nefndinni um það, hvort ef í frv. væru tekin lög þar, þar sem feldar hefðu verið úr gildi tilteknar greinar, þær endurrisu þá, ef ekki væri annars við getið. Til þess að taka af öll tvímæli um það, tók því nefndin þetta ráð, að taka upp ákvæði laga 2. nóv. 1914 og 3. nóv. 1915, þau sem ekki hafa verið úr lögum numin, og nema síðan þau lög úr gildi.

Loks skal jeg geta þess, að nefndinni þótti óviðkunnanlegt að tilgreina ekki í fyrirsögninni efni frv., og kemur því með brtt. í þá átt að laga það.