22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Halldór Steinsson:

Jeg held, að það megi segja að hv. þm. Ak. (M. K.) hafi í launamáli aukalæknisins á Ísafirði snúist eins og skopparakringla. (Forseti: Ekki svona orð.) Hann reyndi að vísu að klóra yfir framkomu sína, með því að segja, að hann hefði að eins ætlast til að bæta lækninum upp, eftir því sem kjör hans væru nú. En hann mun standa einn uppi með þennan skilning. Allir aðrir munu eflaust hafa ætlast til, að þessum manni yrði bættur skaði hans, í hlutfalli við kjör annara lækna, hvað sem þeir kunna nú að álíta.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. Rang. (E. P.). Það voru reyndar ekki prestleg orð, sem hann viðhafði, þegar hann sagðist „ekki ætla í skítkast“ við mig, og forseti átaldi þau ekki. Annars sagði hann, að lítill munur væri á till. nefndarinnar og launafrumvarpinu. En jeg skil ekki svona dæmalausa sljóskygni. Dæmið er ósköp einfalt og skal jeg nú setja það skýrt upp. Eftir till. nefndarinnar ætti maður þessi að fá 2000+800 kr. = 2800 kr., en eftir launalögunum ætti hann að hafa 3200 kr., að viðbættri dýrtíðaruppbót, sem sje 6400 kr., þar sem hann hefir nú verið læknir í 12 ár. Þegar 2800 kr. eru nú dregnar frá 6400 kr., býst jeg við, að ekki þurfi um það að deila, að útkoman sje 3600 kr., en það er sú upphæð, sem skaði læknisins nemur við það, að vera kipt út af launalögunum. En jafnvel þó að mín till. væri samþykt. væri honum samt ekki alveg bættur skaðinn — jeg geri ekki ráð fyrir því, að prestleg rjettlætistilfinning fjárveitinganefndarinnar eða deildarinnar leyfi það — en það verður bætt mikið úr honum með því að samþykkja till. Þá fær læknirinn sem sje 4000+800 kr. = 4800 kr., eða tapar m. ö. o. 1600 kr.

Þetta virðist mjer vera svo ljóst, að jafnvel þó að hv. 1. þm. Rang. (E. P.) vilji ekki skilja það, ættu þó aðrir hv. deildarmenn að skilja það. Hv. þm. (E. P.) var að fárast yfir því, að með því fyrirkomulagi, sem jeg sting upp á, gæti aukalæknirinn orðið jafnlaunahár og aðallæknirinn. En mjer er nú spurn: Hafa þeir ekki báðir kostað jafnmiklu til sín? Hafa þeir ekki báðir sömu mentun? Hafa þeir ekki báðir jafnan rjett samkvæmt stöðu sinni? Jeg veit ekki betur — og því skyldi þá þurfa að gera þann greinarmun á laununum, að öðrum þeirra verði ókleift að lifa á þeim.