22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Guðmundur Ólafsson:

Það er reyndar leiðinlegt að segja nokkuð, þegar svona margt hefir verið sagt áður — og misjafnt.

Jeg get þó ekki stilt mig um að minnast dálítið á byggingarstyrkinn og leiðrjetta misskilning, sem þar kom fram. Það var sem sje sagt, að alger kyrrstaða hefði verið á húsabyggingum í Reykjavík í síðastliðin 5 ár. En þetta er ofsagt. Því nú er mikið bygt, og 1914 var sömuleiðis bygt töluvert, en jeg get ekki sjeð, að þar sjeu 5 ár á milli.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) lýsti því átakanlega, að hingað til Reykjavíkur streymdu bjargarlausir vesalingar, sem hvergi ættu höfði sínu að að halla. (M. K.: Það hefi jeg aldrei sagt). En ef svo er, þá er hjer eftir einhverju að sækjast. Að öðrum kosti yrði fólkið ekki of margt fyrir húsnæðið.

Það er rangt, að hjer í Reykjavík hafi verið alger kyrrstaða hvað byggingar snertir í síðastliðin 5 ár. Öll árin hefir verið nokkuð bygt og mikið 1914 og eins í sumar. Ef það er örðugt að byggja hjer, þá er enn örðugra að byggja annarsstaðar, því hjeðan er meginið af öllu byggingarefni flutt út um landið.

Það var á háttv. þm. Ak. (M. K.) að heyra, að „þessir stórbændur“, sem hann svo kallaði, flæmdu fólkið úr sveitunum í kaupstaðina. Hann sagði, að þeir þyrftu ekki að setja sig upp á móti till., hún væri í þeirra þágu að því leyti, sem hún kæmi í veg fyrir, að þeir þyrftu að taka á móti hópum af endursendu fólki heim í sveitirnar. Svo hefir það þó verið, að kaupstaðirnir hafa endursent töluvert af óvinnandi ómagalýð, og held jeg, að það myndi halda fram eins og hingað til, enda eru bændur farnir að venjast slíku.

Sami þm. (M. K.) sagði, að bændur ættu að gera eitthvað til þess að hæna vinnufólk að sjer. Fyrst út í þetta er komið, get jeg lítillega borið saman kjör verkafólks í sveitum og kaupstöðum eða veiðistöðum. Það er ósjaldan, sem fólkið, sem kemur úr síldarvinnunni, hefir ekki betri sögu að segja en kaupavinnufólkið úr sveitunum. Það kemur stundum allslaust og ver farið en þegar það fór af stað. Kaupafólkið hefir jafnan vissar tekjur, og þær ríflegar. Það gengur ekki á þær meðan það dvelur í sveitinni. Og það þekki jeg ekki, að fólk sje þar svikið um kaupið.

Þá gat háttv. þm. (M. K.) um fjárveitingu til húsabygginga í sveitum. En jeg veit ekki betur en að líkt sje á komið um sveitir og kaupstaði að því er þetta snertir, ef fjárlögin eru látin halda sjer eins og þau nú eru.

Háttv. þm. lýsti yfir því, að deildin ætti kann ske kost á að sjá lög byggingarfjelagsins. Jeg get trúað því, að þau sjeu ekkert leyndarmál. Þau líta auðvitað vel út, eins og lög annara fjelaga. Jeg hefi aldrei dregið það í efa. En ósjeð er samt, hvernig þeim verður framfylgt. Jeg lasta ekki fjelagsskapinn, þó að jeg sje því mótfallinn, að ríkið styrki hann. Styrkurinn er talinn smávægilegur. En jeg hygg, að auðvelt sje að sýna fram á, að húsakynni sjeu engu betri en í Reykjavík hvar sem er annarsstaðar á landinu. Flest kauptún, sjávarþorp og sveitarfjelög á landinu myndu því koma á eftir og biðja um samskonar styrk. Jeg hygg, að það yrði töluvert erfitt að neita þeim, ef Reykjavík nýtur svona styrks. Það yrði ekki vandi að koma af stað byggingarfjelögum, sem öll rjettu út höndina eftir fjárveitingum. Það yrði sama sagan og um almennu dýrtíðarlánin hjer um árið.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að það ætti ekki að braska með húsin. Þau verða náttúrlega ekki bygð í þeim tilgangi. En hvaða tryggingu höfum við fyrir því, að húsin verði ekki seld eða braskað með þau, því að enginn mun neita því, að húsabrask sje nú einn af arðvænlegri atvinnuvegum bæjarbúa.

Þá hafði þingmaðurinn mörg orð um það, að deildin hafi hingað til verið nokkuð góð, en að sá dómur mundi breytast til hins gagnstæða, ef umrædd brtt. væri feld. Jeg geri mjer samt vonir um, að deildin mundi ekki missa meira í en háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.). Háttv. þm. Ak. (M. K.) gaf honum þann vitnisburð, að hann væri góður og mjög samviskusamur maður, en að honum hafi skjöplast í þessu máli. Jeg vona, að deildin sleppi með ekki verri útreið.

Mig furðar á því, að háttv. þm. skyldi í öðru hverju orði hnýta í bændur. Þetta mál er að vísu óskylt bændum, en þeim er þá betur trúandi til að hafa óhlutdræga dómgreind á því en háttv. þm. Ak. (M. K.). Jeg sje, að flutningsmenn brtt. eru úr tveim aðalkaupstöðum landsins utan Reykjavíkur. Jeg er ekki grunlaus um, að þeim gangi það til, að krækja í eitthvað handa sínum kjósendum á næsta þingi. Það er satt, að þessi fjárveiting er ekki mikil, en þetta dregur sig saman þegar þeir koma með sín kjördæmi, og þá hver af öðrum. Hjer er því sannarlega um viðsjárvert fordæmi að ræða.