21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

99. mál, forkaupsréttur á jörðum

Sveinn Ólafsson:

Jeg mun vera sá eini af þingdm., sem greiddi atkvæði móti þessu frv. við 2. umr. þess. Það má því gera ráð fyrir, að það þýði ekki mikið að mæla á móti því nú. En jeg tók eftir því þá, að nokkrir hv. þingdm. greiddu ekki atkvæði. Og þess vegna áleit jeg, að þeim væri ekki sjerlega ant um framgang frumvarpsins.

Mjer finst rjett að minnast þess, að þetta frv. er í rauninni endurtekning á frv. sama efnis, sem lá fyrir þinginu 1917 og þá var afgreitt með rökstuddri dagskrá. Jeg held jeg megi fullyrða, að hv. 2 þm. Árn. (E. A.) hafi þá greitt atkvæði móti frumvarpinu og talið, að það væri ófrjálslegt og legði of mikil höft á umráð manna yfir eignum sínum. Fleiri hv. þingdm. munu hafa tekið í sama strenginn og fundið því hið sama til foráttu.

Upphaflega hafði jeg ætlað mjer að koma fram með brtt., til að reyna að lagfæra eða sníða burtu helstu annmarka frumvarpsins, en síðar hvarf jeg frá því. Mjer fanst innviðum frv. svo áfátt, að eigi tæki viðgerð.

Háttv. landbúnaðarnefnd hefir tekið það fram, að með þessu frv. væri fyrirbygt alt jarðabrask. En hvað er það, sem hún nefnir því nafni? Ef til vill eru öll eigandaskifti að jörðum á hennar máli „jarðabrask“, Jeg er nú ekki viss um, að jeg skilji rjett, hvað átt er við með orðinu jarðabrask. Jeg hefi heyrt getið um, að einstaka menn hjer í nágrannasveitunum hafi leitast við að safna að sjer jörðum. En annarsstaðar úti um land þekki jeg þess ekki dæmi. — Menn kaupa jarðir til þess að búa á þeim sjálfir, eða til að tryggja börnum sínum jarðnæði, þegar þau eru orðin fullorðin. Og það finst mjer ekki nema rjettmætt. En eftir þessu frv., ef að lögum verður, tekst ekki að selja jörð, þó maðurinn þurfi á peningum að halda, og heldur ekki að kaupa jörð nema með mestu erfiðleikum. Því altaf verður að leita til sveitarstjórna, og þær grípa hvarvetna fram í eða geta gert það.

Þetta frv. á af vera til þess að efla sjálfsábúð í landinu. En mjer finst það helst miða að því, að jarðirnar lendi hjá sveitarstjórnum. Sjálfsábúð eykst ekki við það, nema svo sje, að hv. landbúnaðarnefnd ætli sveitarstjórnum að versla með þessar jarðir og selja þær ábúendum, og líklega þá með einhverjum ávinningi, sem tryggi hreppana fyrir tapi. — Jeg tók eftir því hjá hv. landbúnaðarnefnd, að hún virtist hafa fundið, að þetta væri athugaverð og ófrjálsleg ráðstöfun um jarðasöluna, því að í áliti hennar kennir hún ráð til að fara í kringum lögin, sem sje með því að láta þann, sem á að verða eigandi jarðarinnar, taka hana fyrst til ábúðar og ná í forkaupsrjettinn — þó ekki væri nema að yfirskini. — En þetta getur orðið allerfitt, ef sá sem í hlut á, er of ungur til að byrja búskap, eða hann býr í fjarlægum landshluta. Hann yrði þá fyrst að flytja sig á jörðina, til þess að geta fengið forkaupsrjettindi. — Þetta var aðallega það, sem jeg hafði að athuga við frv. að efni til. En auk þessa er formið á frv. líka athugavert. Þetta er eiginlega steypt saman úr tvennum lögum, þessu nýmæli um rjettleysi sjálfseignarbænda til að ráða eignum sínum, og lögunum frá 1905, um forkauprjett leiguliða. Mikið af þessu frv. er eiginlega ekki annað en upptekningar úr þeim lögum, jafnvel tvítekning sama efnis í fyrri og síðari hluta frv.

Þótt jeg hafi ekki mikla von um, að hv. deild vilji nú hafna frv. þessu, þá mátti jeg þó til með að láta þess getið, hvers vegna jeg er því mótfallinn.

Vil jeg þó að síðustu leggja það til, að frv. verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi:

„Í því trausti, að lög um forkaupsrjett leiguliða o. fl., frá 20 okt. 1905, ásamt væntanlegum lögum frá þessu þingi um eignarrjett og nota yfir fasteignum veiti þá tryggingu gegn gálausri jarðasölu, sem nauðsynleg er, og efli æskilega sjálfsábúð í landinu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“