21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

99. mál, forkaupsréttur á jörðum

Einar Arnórsson:

Það er að eins stutt athugasemd.

Það er rjett hjá hv. 1. þm. S.-M (Sv. Ó.), að jeg var á móti frv. um þetta efni, sem borið var fram á þingi 1917. En það frv. var alt annað en það, sem nú liggur fyrir.

Jeg var þá, eins og háttv. þm. (Sv. Ó.) er nú óánægður með form frv. Auk þess var kauprjettur landssjóðs tilskilinn í því frv., og gat jeg ekki sætt mig við það, enda er það sýnilegt, að forkaupsrjettur landssjóðs, eftir að bæði leiguliði og hreppur voru gengnir frá, gat dregið málið til mikils óhagnaðar seljanda.

Það er rjett, að með frv. þessu sjeu lögð bönd á umráðarjett manna, en ekki sje jeg að það sje síður rjettmætt að heimila hreppi forkaupsrjett á jörðum, sem seldar eru úr sjálfsábúð, en á jörðum, sem í leiguábúð eru seldar. Hreppi getur verið alveg eins mikil nauðsyn á því að fyrirgirða það, að slíkar jarðir komist í eign utanhreppsmanna, enda eru þær oft meiri gersemar en flestar leigujarðir.

Jeg skil ekki heldur, að þeim, sem sjálfsábúðarjarðir selja, sje vandara um en hinum, þótt þeir verði að sæta forkaupsrjetti hrepps. (S. Ó.: Menn vilja oft láta niðja sína fá höfuðbólin).

Ef háttv. þm. er það áhugamál að gera takmarkanir í því efni, þá hefði honum verið nær að flytja brtt. um það. Jeg skal ekki segja nema háttv. deild hefði fallist á það, og það hefði án efa verið heppilegra en að rísa nú upp með þetta við 3. umr. (Sv. Ó.: Jeg var veikur við 2. umr. ) Hv. þm. (Sv. Ó.) segist þá hafa verið sá eini, sem greiddi atkvæði móti frv.: eftir því hefir hann þá verið hjer staddur, eða það hefir verið tvífari hans, sem greiddi atkv., og hefði þá sá helmingur hans einnig átt að geta flutt brtt. við frv. (Sv. Ó.: Jeg náði að eins í atkvgr.).

Það má annars vel vera, að eitthvað sje í þessum till. háttv. þm. (Sv. Ó.), en það hefði verið heppilegra, að þær hefðu komið fyr fram.

Þá er víst leyfilegt að ræða þessa rökstuddu dagskrá, sem fram er komin.

Jeg verð að játa, að jeg skil hana ekki vel, enda hefi jeg litið að eins lauslega á hana. Þar er talað um, að í trausti forkaupsrjettarlaganna frá 1905 og enn fremur laga frá þessu þingi taki deildin fyrir mesta mál á dagskrá. En með því er ekki útilokað þetta frv. (G. Sv.: Hann á ekki við þetta frv., heldur frv. um eignarrjett og afnota af fasteignum). Eftir dagskránni er það vafasamt, hvað við er átt, en ef hv. þm. (Sv. Ó.) á við það frv., sem nú liggur fyrir háttv. Ed., þá er þess að gæta, að ekki er hægt að treysta því, að samþ. verði frv., sem enn er ekki afgreitt frá þinginu.

Það er líka aðgætandi, að það frv. er um alt annað efni; það snertir sölu fasteigna til útlendra manna. Háttv. þm. (Sv. Ó.) hefði því eins vel getað vitnað í dagskrá sinni til hvaða frv. sem var af þeim, sem flutt eru hjer á þingi, því að það frv. getur ekki gert neitt í þessu máli.

Hitt hefði verið hyggilegast, að taka málið út af dagskrá og gefa háttv. þm. (Sv. Ó.) tækifæri til að koma með brtt. við frv.