22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg á hjer engar brtt. Það er að eins ein brtt., á þgskj. 940, sem jeg vildi minnast á, því jeg vildi ógjarnan, að atkvæði mitt um hana yrði misskilið. Jeg get líka varla setið hjá þegjandi, þegar jeg heyri allan þennan matning milli sjávarútvegs og landbúnaðar. Það hefir jafnan verið og er mín skoðun, að landbúnaðurinn sje sá aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, sem eigi að hafa forsætið að því er heiður snertir. Jeg get því ekki setið þegjandi hjá, er jeg heyri landbúnaðinum niðrað, eins og háttv. þm. Ak. (M. K.) leyfði sjer að gera, og einkum er jeg heyri talað um „stórbændur“ með fyrirlitningu. Jeg veit að sönnu ekki, hvort hægt er að tala um stórbændur hjer á landi. En jeg þykist vita, að háttv. þm. Ak. hafi átt við góða og gilda bændur, sem búa við sæmileg efni. Þeir eru stundum kallaðir ,,stórbændur“, af því að ekkert stórt er til samanburðar. En bændur þessa þekki jeg ekki að öðru en að vera mestu heiðursmenn. Þeir eiga góð heimili og eru heimafólki sínu hinir bestu húsfeður. Það er í alla staði óverðskuldað að bera þeim á brýn, að hagur fólks, sem vinnur hjá þeim, sje að jafnaði lakari en þess fólks, sem vinnur hjá útgerðarmönnunum. Jeg hygg þvert á móti, að hann muni vera betri.

En þar sem þetta er skoðun mín, þá er jeg ekki óhræddur um, að atkv mitt um brtt. á þgskj. 940 kynni að verða misskilið, því að mjer dettur ekki annað í hug en að greiða henni atkvæði. Það er bjargföst skoðun mín, að það sje óheppilegt, að fólk streymi úr sveitum í kaupstaðina. En það er líka óheppilegt, að það fólk sje rekið í hópum heim á sveit sína, sem fyrir margra hluta sakir er orðið stórspilt sem verkafólk í sveitum. Jeg á ekki við aðra siðspillingu en þá, sem að vinnubrögðum lýtur, þó að um víðtækari siðspillingu gæti einnig verið að ræða.

Það fjelag, sem um er rætt að styrkja, er stofnað með samvinnusniði. Það er stofnað vegna einstakrar húsnæðiseklu hjer í Reykjavík, því að sú sætta vofir yfir vor og haust hjer, að fólk verði að liggja úti hópum saman. Það væri að vísu ráð og lögum samkvæmt að taka alt húsnæðislaust fólk og senda það heim á sína sveit, ef það á ekki sveit hjer. Jeg er of gamall sveitarstjórnarmaður til þess að vita ekki, hvaða hagræði væri að slíku fyrir sveitirnar. Því kvíði jeg mest fyrir hönd sveitanna, að þær fái slíkar sendingar að hausti til, þegar minst vonum varir. Ég sem betur fer er mannúðin orðin svo rík í kaupstöðunum, að menn skirrast við að reka fólk þaðan nauðugt. Til þess eru einnig mörg dæmi, að fólk, sem ekki hefir getað komist af í sveitum, hefir komist sæmilega af í kaupstað.

Það væri mjög óheppilegt, bæði fyrir þjóðfjelagið og einstaklingana, ef menn eru reknir þaðan, sem þeir geta bjargað sjer, vegna húsnæðisleysis. Og þó að dugandi minn bærust með þessum ómagasendingum, þá yrði það til lítils gagns fyrir sveitirnar, því að þeir myndu óðara en betur áraði rjúka til kaupstaðanna aftur.

Verst af öllu öfugstreymi úr sveitunum í kaupstaðina er það, þegar góðir bændur eru að bregða búi og skifta á öllum eigum sínum og rándýrum húsaskrokkum hjer í Reykjavík. Það væri vel, ef sá straumur væri hindraður. Þrátt fyrir alla húsnæðisekluna eru hjer til braskhús, sem góðir bændur hafa verið narraðir til að kaupa. Þetta þarf að hindra. En sveitirnar eru litlu bættari, þó að fátækt fólk sje látið frjósa hjer á götunum, þar til það skilur við þetta líf, eða er flutt á sveit sína, sem það að öðrum kosti hefði aldrei fallið til byrði. Þá þarf að styrkja þá til að byggja, sem ekki geta bygt af eigin ramleik.

Af greindum ástæðum mun jeg hiklaust greiða atkvæði með brtt., sem fer fram á einar 6000 kr. árlega til samvinnubyggingarfjelags, og það því fremur, sem Reykjavíkurbær leggur drjúgan skerf á móti til þess að bjarga fólki, sem honum ber ef til vill engin skylda til að framfleyta. Þetta er hjálp við þær sveitir, sem annars ættu að taka á móti ómagasendingunum. Jeg gæti rakið mörg dæmi þess, að fátækt fólk hafi komist betur af í kaupstað en í sveit. Jeg skal að eins nefna konu, sem var svo óheppin að eignast krakka í sveit. Hún komst ekki af, heldur lenti krakkinn á sveitinni. Sjálf fór konan í kaupstað, en óhepnin elti hana, og hún eignaðist þar annað barn, en í kaupstaðnum hefir hún komist af hjálparlaust með seinna barnið til þessa dags. Jeg veit það, að sú sveit, sem hefir framfærsluskyldu þessarar konu, þætti ekki gleðiefni að fá hana endursenda enda vænti jeg, að Reykjavíkurbæ takist að skjóta skjólshúsi yfir alla sem þaðan vilja ekki fara.

Jeg vildi verja öllum mínum kröftum til að hlynna að landbúnaðinum, því jeg álít, að hann sje hyrningarsteinn íslensks þjóðlífs. Ef hann er færður úr skorðum, er þjóðfjelagi voru hætt. Og samt, eða rjettara sagt vegna þessarar skoðunar minnar, greiði jeg atkv. með brtt. á þgskj. 940. Hún er landbúskapnum í hag.