01.08.1919
Efri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

107. mál, ákvörðun verslunarlóðarinnar í Hafnarfjarðarkaupstað

Flm. (Kristinn Daníelsson):

Þetta frv. er komið fram af svo eðlilegum ástæðum, að jeg vona, að hv. deild hafi ekkert við það að athuga. Svo er mál með vexti, að verslunarlóðin í Hafnarfirði hefir enn ekki verið ákveðin, þótt undarlegt kunni að virðast; en bæjarstjórninni í Hafnarfirði þykir rjett að draga það nú ekki lengur og hefir ákveðið það, sem henni þykir vera hæfileg takmörk.

Jeg hefði getað mælst til þess, að frv. gengi nefndarlaust gegnum hv. deild, en með því að von er á uppdrætti yfir þetta svæði, þykir mjer rjettara að leggja það til, að frv. verði vísað til nefndar, og þá eftir atvikum til sjávarútvegsnefndar.