21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

132. mál, laun háskólakennara

Forsætisráðherra (J. M.):

Erindi það, sem hv. þm. Dala (B. J.) las upp, ásamt meðmælum og tilmælum heimsspekisdeildar og háskólaráðs, kom svo seint til mín, að jeg treysti mjer ekki til að leggja það fyrir þetta þing, en ljet mjer nægja að senda allsherjarnefnd það til íhugunar.

Jeg finn í rauninni ekki ástæðu til að fara frekar út í málið, en get þess þó, að jeg býst við, að hefði það komið í tæka tíð til stjórnarinnar, mundi jeg hafa tekið vel í, að hjer væri stofnað prófessorsembætti, bæði vegna stöðunnar sjálfrar, og mannsins, sem nú situr í embættinu. Jeg tel, að rjett hefði verið, að svo hefði verið gert þegar í fyrstu.