28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

132. mál, laun háskólakennara

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Þetta mál liggur svo ljóst fyrir, að ekki virðist þurfa að fara mörgum orðum um það, enda gerði flm. málsins (B. J.) ljósa grein fyrir því við 1. umr.

Eins og tekið er fram í greinargerð frv., hefir kennarinn í sögu við háskólann farið þess á leit við háskólaráðið, að aukakennaraembætti hans verði gert að aðalkennaraembætti við háskólann. Og háskólaráðið ásamt heimspekisdeild háskólans hafa lagt eindregið með því, að þetta verði gert.

Nefndin lítur svo á, að þetta sje mjög eðlileg tilmæli, og sjálfsagt sje að verða við þeim. Það sje rjett, bæði hvað fræðigreinina sjálfa snertir, því að hún megi teljast svo mikilvæg lærdómsgrein, að það sje í alla stað rjett, að henni sje gert jafnhátt undir höfði og öðrum fræðigreinum við háskólann, sem skipaðar eru prófessorsembættum. Sömuleiðis lítur nefndin svo á, að gagnvart þessum kennara sje ekki síður ástæða til að verða við tilmælum þessum. Það er viðurkent af öllum, að þessi kennari hafi staðið mjög vel í stöðu sinni. Ritverk hans í sögulegum vísindum, sem snerta okkar þjóð og land, eru þjóðkunn, og blandast engum hugur um, að þau mæli fullkomlega með þessari breytingu á kennaraembætti hans. Skal jeg þar nefna t. d.: Odd lögmann, Skúla fógeta, Íslenskt þjóðerni, Gullöld Íslendinga, Íslandssögu hans, sem er kenslubók, og sömuleiðis Dagrenning, þar sem minst er aðalstarfsemi helstu ágætismanna þjóðar vorrar á liðnum tíma og þýðingar þeirra fyrir þjóðlíf vort, svo sem: Eggerts Ólafssonar, Skúla Magnússonar, Magnúsar Stephensen, Baldvins Einarssonar og Jón Sigurðssonar. Og þá síðast, en ekki síst, má nefna Verslunarsögu Íslands, sem er að koma út, og talin er að vera hans mesta og merkilegasta ritverk.

Það er því síður en svo, að nefndin sjái ekki og viðurkenni, að þessi maður er mikils góðs maklegur, þó að hún vilji ekki leggja til meiri breytingar en þá, sem brtt. hennar fer fram á, að aukakennaraembætti hans verði gert að aðalkennaraembætti. Nefndin gat sem sje ekki fallist á að telja hann til launahækkunar sem hann hefði verið aðalkennari öll þau ár, sem hann hefir kent við háskólann, frá því er hann var stofnaður, heldur njóti hann nú byrjunarlauna þeirra, sem prófessorum er ætluð. Enda verður ekki sjeð á brjefi hans um þetta atriði, að hann fari fram á annað. Hann gerir sig því óefað ánægðan með það, sem nefndin leggur til, og hún álítur það líka sæmilegt. Samkvæmt því launafrv., sem nú er á ferðinni, og gera má ráð fyrir, að nái fram að ganga, verða byrjunarlaun hans sem prófessors 4500 kr. nú þegar, og hækka á hverjum 4 árum um 500 kr. þar til þau verða 6000 kr. En sem docent hefði þessi kennari (Jón J. Aðils) eftir sama frv. 4000 kr., sem hækka eftir 4 ár upp í 4500 kr., en hækka svo ekki úr því. Hann fengi því nú þegar sem prófessor þau hæstu laun, sem hann gæti nokkru sinni búist við að fá sem docent eftir þessu frv.

Þetta hefir nefndin talið vel gerlegt og sjálfsagt, og ræður því til þess, að brtt. verði samþykt, en telur að öðru leyti rjett og skylt að samþykkja frv. um, að embættið verði gert að prófessorsembætti.