28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

132. mál, laun háskólakennara

Bjarni Jónsson:

Jeg má nú þakka hv. nefnd undirtektir sínar að sumu leyti, þar sem hún hefir fallist á aðalatriði þessa máls, að þessi maður verði aðalkennari (á latínu professor) við háskólann. Að nefndin hefir viljað orða frv. öðruvísi geri jeg ekki að deilumáli, úr því að það er ekki mitt handbragð, og jeg ber því ekki ábyrgð á því.

En það er eitt atriði, sem mig furðar á í till. nefndarinnar, en það er það, sem hv. frsm. (St. St.) greindi síðast frá. Jeg sje á nefndarálitinu, að hv. nefnd hefir komist að nákvæmlega rjettri niðurstöðu um þessa kenslugrein, að henni beri jafnhár sess og hinum, málfræðinni og bókmentasögunni. Mun enginn verða til að neita þessu. Í öðru lagi kemst nefndin að þeirri hárrjettu niðurstöðu, að maður þessi hafi gegnt starfi sínu ágætlega vel. En þar sem nú nefndin kemst að þessari niðurstöðu, að þessi námsgrein hefði frá öndverðu átt að vera í veglegra flokki, og að þessi kennari hafi ekki gegnt starfi sínu ver en aðrir, sem kallaðir eru prófessorar, þá hefði afleiðingin átt að vera sú, að nefndin hefði ekki viljað láta hann vera lengur hlutræningja. Því að fyrst bæði eru viðurkend fræðigreinin og maðurinn, þá ætti hann nú þegar að vera jafnvel settur og þeir, sem kent hafa jafnlengi. Hann ætti því nú að hafa sömu kjör og þeir, sem byrjað hafa sem aðalkennarar. Skal jeg nú segja frá því, sem munar á kjörum þessa manns og annara kennara háskólans eftir núgildandi lögum og launafrv. því, sem kunnugt er nú um að ná muni samþykki þingsins.

Eftir núgildandi launalögum hefir þessi kennari, Jón Jónsson, eftir 8 ára þjónustu 600 kr. minna í laun árlega en þeir professores, sem jafngamlir eru honum að embættisaldri og 200 kr. minna en þeir yngstu professores við háskólann. En þessi munur fer þó altaf vaxandi, því að laun þeirra fara hækkandi, en hans ekki.

En eftir launafrv. stjórnarinnar hefði Jón Jónsson 1000 kr. minna árlega en þeir professores, sem jafnir eru honum að embættisaldri og 500 kr. minna en yngstu professores við háskólann.

En fyrst brtt. launanefndar gengu fram, mun Jón Jónsson hafa 1500 kr. minna í laun árlega en þeir professores, sem jafnir eru honum að embættisaldri, og 900 kr. minna en yngstu professores við háskólann.

Þetta er nú alment til að mæla með því, að þessi maður sje gerður aðalkennari því að það er þó hóti betra. En fyrir því er hans hlutur verri en þeirra aðalkennara, jafngamalla honum að kenslualdri, er við háskólann vinna. Því að þeir eru aðalkennarar sem unnið hafa við háskólann þau 8 ár síðan hann var stofnaður, og þegar hin nýju launalög ganga í gildi, njóta þeir síns tíma og komast þegar á hæstu laun. En hann verður nú að byrja sem nýbyrjandi og vinna í 8 ár enn, áður en hann kemst á sömu laun. En eftir 8 ára viðbót á þann mann, sem kominn er yfir fimtugt, fer nú að saxast á limina hans Björns míns, því að menn vita ekki, hve lengi fimtugum manni endist aldur til starfs. Það væri alt annað, og ekki saman berandi, ef hjer væri að ræða um ungan mann, sem á eftir að hækka í tign, eins og t. d. aukakennararnir (docentes) í guðfræðisdeild og læknadeild, þar sem eru 1 eða 2 aðalkennaraembætti fyrir, sem þeir taka við er þau losna. Það er ekki saman berandi við þann mann, sem er yfir fimtugt. 8 ár eru alt annað af æfi þess manns, sem er ekki yfir þrítugt, en hins, sem orðinn er fimtugur. Nefndin getur auðvitað svarað: „Ungur má“, en þá svara jeg: Gamall skal.“

En jeg býst nú við, að hv. nefnd muni ekki halda þessu til streitu við 3. umr. Mun jeg þá koma með brtt., að hann sem embættismaður njóti starfstíma síns í samræmi við það, sem launafrv. kveður á um aðstoðarpresta, og lækna sem þjónað hafa undir annars nafni. Hvers vegna ætti þessi maður að vera settur út undan þeirri rjettu reglu, sem þingið hefir upp tekið, að reikna launin eftir þeim tíma, sem menn hafa unnið? Hann ætti ekki að gjalda viðurkends misrjettis gagnvart honum og fræðigrein hans, heldur njóta starfstíma síns með þessum hætti. Hann hefir unnið í embætti sínu á eigin ábyrgð, og unnið vel, og ætti að fá að njóta þess, svo sem jeg nú hefi sagt.

Jeg býst við, að hv. nefnd hafi ekki athugað nægilega vel þetta mál nje borið saman við hliðstæður.

Að öðru leyti þakka jeg hv. nefnd góðar undirtektir og vona, að hv. deild öll fallist á að það, sem jeg fer fram á, sje sanngjarnt og sjálfsagt.