01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

132. mál, laun háskólakennara

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Við frv. þetta hefir komið fram brtt. frá háttv. þm. Dala. (B. J.) Till. er í tveimur liðum og er það um fyrri liðinn að segja, að það kom til umræðu í nefndinni, að jafnvel myndi heppilegt að gera þá breytingu á lögunum, að í stað þess, að kennaranum í málfræði er ætlað að kenna menningarsögu, þá yrði honum uppálagt að kenna bókmentasöguna, en þá kennaranum í sögu menningarsöguna. Að nefndin rjeð ekki beint til þessarar breytingar var því fremur af því, að hún vildi síður leggja til frekari breytinga á lögunum en sjálft frv. benti til en það, að hún ekki liti á þetta atriði líkt og flm. tillögunnar. Mjer er því óhætt að fullyrða, að nefndin fellst á þann lið brtt.

En um síðari lið brtt. er það að segja, að svo virðist, sem hún færi frv. aftur í samt lag eða með öðrum orðum felli þá breytingu, sem gerð var við frv. við 2 umr., og er því fremur ólíklegt, að þeir sem samþ. þá breytingu, verði nú meðmæltir þessari. En annars mun nefndin ekki gera þetta að neinu kappsmáli enda var nokkur ágreiningur í nefndinni um það, hvernig launin skyldu talin, þótt hún vildi ekki gera það að klofningsatriði og yrði því að síðustu sammála um till.