03.09.1919
Efri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

132. mál, laun háskólakennara

Forsætisráðherra (J. M.):

Orsökin til þess, að mál þetta er fram komið hjer á þinginu, er sú, að tilmæli komu frá háskólaráðinu um það, að docentinn í Íslandssögu verði gerður að prófessor. Að vísu kom einnig fram beiðni um það, að docentinn í guðfræðisdeild yrði skipaður prófessor, og sama er að segja um docentinn í læknadeild, þó ekki sje beint mælt með því, af vissum ástæðum. Beiðni þessi kom til stjórnarinnar, en svo seint, að hún sá sjer ekki fært að bera hana fram sem stjórnarfrumvarp, þar sem leita hefði þurft símleiðis leyfis konungs til þess. Leit hún einnig svo á, að það hefði mátt bíða til næsta þings, sem sennilega verður haldið á næsta ári.

En nú hefir einn hv. þm. í Nd. borið fram frv. um það, að þessi docent verði gerður að prófessor, — og hefðu tilmælin komið fram í tæka tíð, mundi stjórnin hafa flutt það. — Jeg lít svo á, ekki einungis vegna mannsins, sem docentsembættið skipar í þessari fræðigrein, heldur og vegna fræðigreinarinnar sjálfrar, að sjálfsagt sje, að kenslustarfið í henni sje gert að prófessorsembætti.

Vildi jeg því leggja til, að hv deild samþ. þetta frv.

Hins vegar finst mjer málaleitun læknis- og guðfræðisdeildar vel geta beðið.

Mál þetta hefir verið í mentamálanefnd hv. Nd., og býst jeg því við, að því verði vísað til sömu nefndar þessarar hv. deildar.