23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

62. mál, skoðun á síld

Flm. (Matthías Ólafsson):

Jeg þykist ekki þurfa að halda langa ræðu til að sýna fram á, hve nauðsynlegt mat á útflutningvörum er til að tryggja, að þær sjeu sem best vandaðar, því að það mun nú orðið alment viðurkent.

Vjer höfum nú um nokkurn tíma haft síldarmat, en það hefir ekki komið að fullum notum, því að nokkur missmíði eru á síldarmatslögunum, og í fyrra reyndist nokkuð af útfluttu síldinni ekki sem skyldi. Það má gera ráð fyrir, að þetta hafi stafað af því, að fyrirmæli laganna hafi eigi verið fullnægjandi; í þeim er t. d. ekki tekið til, hver tegund salts skuli notuð, nje hve mikið af hverri tegund fyrir sig. Á þessu vill frv. þetta ráða bót.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að þessu sinni, en óska, að það fái fljótan framgang í þinginu, svo að lögin komist sem fyrst í gildi.

Að endingu óska jeg að málinu verði, að lokinni umræðu, vísað til sjávarútvegsnefndar; má þá koma að breytingum, ef ástæða þykir til.