31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

62. mál, skoðun á síld

Pjetur Ottesen:

Jeg gat ekki orðið hv. meðnefndarmönnum mínum samferða um ákvæði 6. gr. frumvarpsins. Það er gert ráð fyrir í 5. gr., að matsmenn skuli hafa eftirlit með meðferð allri á síldinni frá því hún fyrst er söltuð og þar til hún er flutt út. Með þessu álít jeg að fengin sje full trygging fyrir því, að síldin verði góð og ábyggileg vara. Jeg geri ráð fyrir, að þeir einir sjeu valdir til þessa starfs, sem skilja ábyrgð þá sem því fylgir, og að þeir þar af leiðandi gegni skyldu sinni í þessu efni eins vel og þeim frekast er unt.

Ef svo bæri við, að þessir menn yrðu ofurliði bornir af þeim sem síldina eiga, svo að þeir gætu ekki fengið því framgengt, að vel væri um alt gengið, gætt að pækli á tunnunum o. fl., þá gera þeir að sjálfsögðu yfirmatsmanni viðvart og getur hann þá neitað að gefa vottorð, ef fyrirskipunum undirmatsmanns hefir ekki verið fylgt.

En að láta ríkissjóð borga kostnað á skoðun á síldinni sem getur orðið talsverður. Það tel jeg varhugavert og ekki viðeigandi.

En af því að jeg held, að með ákvæðum 5. gr. sje fengin trygging fyrir því, að matsmenn hafi eftirlit með síldinni frá því hún er metin og þar til hún er flutt út, þá var jeg á móti þessari breytingu á 6. gr. Jeg get ekki sjeð að þörf sje að ganga lengra í því efni.