05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

62. mál, skoðun á síld

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að vera langorður um brtt. hv. sjávarútvegsnefndar, en svo stóð á þeim, að eftir 2. umr. hjer í hv. deild gat litið svo út að ekki væri hægt að hafa matið svo strangt eins og frv. fór fram á, því það gæti orðið til mikils tjóns fyrir allan síldarútveg. Nefndin fjelst á þessar ræður manna, og því eru brtt. fram komnar frá henni. Jeg hygg, að hv. þm. sjái, að mikil bót er enn þá að frv., því matið er trygt svo, sem hægt er, án þess þó að gera útgerðarmönnum mikinn baga. Þetta tvent hefir nefndin viljað sameina, og jeg álít, að henni hafi tekist það, enda hefir engin athugasemd komið fram við það af hálfu útgerðarmanna eða síldarmatsmanna. Má því búast við, að þessi lagasmíð geti orðið töluvert til frambúðar. Jeg vona, að þetta frv. verði látið ganga greiðlega gegnum þingið, þó þau geti ekki komist í framkvæmd í ár, þar eð svona er orðið áliðið, en þau ættu að vera til næsta ár, þegar síldarútvegurinn hefst.